Það sem fyrst vekur athygli við Náttúrugripasafnið eftir Sigrúnu Eldjárn er flott hönnun bókarinnar. Sniðugar myndir eru nánast á hverri einustu opnu, bókin er líka falleg á litinn, fer vel í hendi og er í alla staði mjög girnilegur prentgripur. Sigrún er vel þekktur myndlistarmaður og sér vitaskuld sjálf um myndskreytingar, en einnig brýtur hún bókina um.
Sagan hentar börnum á aldrinum 8-12 ára og hún fjallar um börn á því aldursbili. Aðalpersónurnar eru Rúnar, sem býr ásamt föður sínum í þorpinu Ásgarði, og systkini af indverskum uppruna, þau Magga og Lilli, sem búa á sama stað með sínum foreldrum.
Sagan er römmuð inn með frásögn af ömmu systkinanna Möggu og Lilla, en hún býr á Indlandi og veit ekki hvernig hinum ættleiddu barnabörnum hennar hefur reitt af. Hún sendir þeim pakka, en innihald hans leikur síðan lykilhlutverk í sögunni. Rúnar tekur líka með sér dularfullan pakka úr skrítinni verslun í New York og fer með hann heim til Íslands í trássi við vilja móður sinnar. Það sem í honum leynist kemur líka heldur betur á óvart og af stað fer æsileg atburðarás.
Náttúrugripasafnið er fantasía þar sem dvergar leika lausum hala, forsögulegur maður vaknar til lífsins, beinagrind löngu látinnar stúlku á safni tekur til sinna ráða og kettir hugsa líkt og menn.
Sagan er bæði skemmtileg og spennandi, en höfundur leggur líka lykkju á leið sína til þess að fræða hina ungu lesendur sína. Það verður þó aldrei „skólabókarlegt" eða predikandi, heldur er fræðslan mjög smekklega felld inn í söguna og sett fram á einfaldan hátt. Gott dæmi er t.d. þegar krakkarnir fá dularfullt bréf sem inniheldur orð sem þau skilja ekki:
Rúnar skýst inn í pabba herbergi og sest við tölvuna. Hann finnur fljótlega orðabók á netinu og slær inn þetta undarlega orð.
„Hey, hlustaðu, hérna er þetta. Það stendur:
gísl –s, -ar, KK: maður afhentur eða tekinn í gæslu til tryggingar því að samningar takist (haldist) eða farið sé eftir fyrirmælum."
Hann lítur á Möggu. „Ég skil þetta nú ekki almennilega, en þú? Hvað þýðir til dæmis þetta: -s, -ar og KK? Er þetta eitthvert dulmál?
„Nei, bjáninn þinn! Þetta er málfræði," svarar Magga hneyksluð. „Kanntu ekki að fletta upp í orðabók? Ég skal útskýra þetta fyrir þér." (106-107)
Fróðleikurinn er ekki einungis málfræðilegur, heldur verða börn líka nokkurs vísari um fornleifa- og náttúrufræði (faðir Rúnars stendur í að koma á fót náttúrugripasafni í þorpinu) auk þess sem rammafrásögnin um uppruna systkinanna er falleg og til þess ætluð að undirstrika að „hjörtum mannanna svipar saman…" eins og þar stendur.

Niðurstaða: Hressileg saga fyrir fróðleiksfúsa og ævintýragjarna krakka.