Skoðun

Skattbyrði allra hefur þyngst

Tryggvi Þór Herbertsson skrifar
Í tilefni af tíðum ummælum stjórnarliða, nú seinast ráðherra efnahags-, viðskipta-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í grein hér í blaðinu um helgina, um að meirihluti Íslendinga greiði lægri skatta í hlutfalli við laun sín nú árið 2012 en var árið 2009, er rétt að gera einfaldlega samanburð á skattbyrði áranna tveggja.

Eins og sést á myndinni greiða allir, sem borga skatta á annað borð, hærri skatta í dag en ef kerfið frá 2009 væri enn við lýði.

Þeir sem eru með laun undir 200 þúsundum greiða það sama (miðað við sömu laun). Þeir sem eru með laun á bilinu 200 til 650 þúsund borga 2,9% meira. Þeir sem eru með hærri laun en 650 þúsund borga 8,9% meira af launum sínum.

En hvernig stendur þá á því að fjármálaráðherra og fjölráðherrann staðhæfa að skattbyrði 60% Íslendinga sé léttari í dag en árið 2009?

Samanburður á skattbyrði áranna 2012 og 2009.
Við þeirri spurningu er einfalt svar: laun flestra Íslendinga hafa lækkað umtalsvert á síðustu árum og þar með skattbyrði þeirra. Stjórnvöld hafa heykst á því verkefni að koma atvinnulífinu af stað sem er forsenda framþróunar lífskjara. Ég myndi því ekki hreykja mér hátt af léttari skattbyrði ef ég væri stjórnarliði!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×