Erlent

Vara forseta við að skrifa undir

Lögunum mótmælt Lögin voru samþykkt með atkvæðum 127 þingmanna gegn 86. Alls sátu 24 hjá. fréttablaðið/ap
Lögunum mótmælt Lögin voru samþykkt með atkvæðum 127 þingmanna gegn 86. Alls sátu 24 hjá. fréttablaðið/ap
Tyrkir vöruðu Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta í gær við því að skrifa undir lög sem gera það glæpsamlegt að afneita þjóðarmorði Tyrkja á Armenum fyrir tæpri öld. Efri deild franska þingsins samþykkti lögin á mánudagskvöld.

Tyrkir segjast munu grípa til ótilgreindra refsiaðgerða gegn Frakklandi ef lögin taka gildi. Þeir hafa þegar slitið hernaðarlegum, efnahagslegum og pólitískum tengslum við Frakka, og sjá ásakanir um þjóðarmorð sem árás á þjóðarheiður sinn. Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, segir lagafrumvarpið sýna kynþáttafordóma og mismunun gagnvart Tyrklandi.

Flokkur Sarkozys greiddi atkvæði með frumvarpinu og því er fastlega búist við því að hann skrifi undir. Gagnrýnendur frumvarpsins segja að það sé kosningabrella og Sarkozy vilji fá Armena í Frakklandi til að kjósa sig. Ein og hálf milljón Armena lést í þjóðarmorðunum árið 1915, en sagnfræðingar telja flestir að þetta hafi verið fyrsta þjóðarmorð 20. aldarinnar. Tyrkir segja hins vegar að ekki hafi verið um skipulögð morð að ræða á þessum tíma, þegar Ottómanveldið var að líða undir lok. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×