Erlent

Ár liðið frá upphafi uppreisnar

ár frá uppreisninni á frelsistorginu Mikill fjöldi fólks kom saman á torginu og skiptist í fylkingar. fréttablaðið/ap
ár frá uppreisninni á frelsistorginu Mikill fjöldi fólks kom saman á torginu og skiptist í fylkingar. fréttablaðið/ap
Tugir þúsunda komu saman á Tahrir-torgi í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, í gær. Ár var þá liðið frá upphafi byltingarinnar þar í landi.

Margir ólíkir hópar komu saman á torginu í gær og í mismunandi tilgangi. Hluti fólksins hefur mótmælt herforingjastjórninni undanfarið og hélt því áfram í gær. Kölluð voru slagorð gegn stjórninni, sem fólk telur að hafi rænt byltingunni. Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti, er fyrir rétti vegna aðildar að morðum í uppreisninni en að öðru leyti hafi lítið breyst.

Þá minntust margir þeirra fjölmörgu sem hafa látist undanfarið ár. Aðrir voru komnir til að fagna því að ár sé liðið frá uppreisninni, og því að frjálsustu kosningar í landinu um árabil séu afstaðnar.

Á þriðjudag var tilkynnt að neyðarlögunum sem hafa verið í gildi nánast samfleytt frá árinu 1967 verði aflétt að mestu. Að auki mun herstjórnin leysa meira en 1.900 fanga úr haldi. Þá kom þingið saman í fyrsta skipti á mánudag. Frelsis- og réttlætisflokkur múslímska bræðralagsins, sem var bannaður undir stjórn Hosni Mubaraks, fékk flest sæti á þinginu. Fjöldi meðlima og stuðningsmanna hans var á torginu í gær. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×