Innlent

Lyfjaefna ekki getið á umbúðum

Bönnuð efni Tíu vörur eru á lista bannaðra fæðubótarefna og vara sem auka eiga kyngetu karla.
Bönnuð efni Tíu vörur eru á lista bannaðra fæðubótarefna og vara sem auka eiga kyngetu karla.
Mörg fæðubótarefni sem markaðssett eru sem kynörvandi eða sem lausn við risvanda karla eru bönnuð hér á landi vegna þess að þau innihalda lyfjaefni sem ekki er getið á umbúðum.

Matvælastofnun (MAST) vekur á vef sínum athygli á nýjum upplýsingum frá spænsku lyfjastofnuninni um vörur af þessum toga sem allar reyndust innihalda virk lyfjaefni. Í flestum tilfellum var um að ræða efnin tadalafil, sildenafil eða sildenafil hliðstæður án þess að efnanna væri getið á umbúðum varanna. „Ein varanna innihélt lyfjaefnið Phentolamine sem meðal annars hefur verið notað við getuleysi," segir á vef MAST, en samkvæmt innihaldslýsingum áttu vörurnar að innihalda mismunandi blöndur af jurtum.

Lyfjaefni þau sem fundust í fæðubótarefnunum ætti aldrei að nota nema í samráði við lækni, segir MAST, þar sem þau geti verið skaðleg heilsu séu þau ekki notuð á réttan hátt. „Vara/fæðubótarefni sem innihalda þessi lyfjaefni teljast hættuleg matvæli, sérstaklega þegar efnanna er ekki getið á umbúðum varanna."

Ekki er vitað til þess að efnin hafi verið hér í sölu en eftirlit með fæðubótarefnum er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. „Hins vegar eru vörurnar allar eða hafa verið til sölu í póstverslun í gegnum internetið," bendir MAST á og hvetur fólk til að kaupa hvorki vörurnar né neyta þeirra. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×