Tónlist

Hæðir og lægðir Houston

Mynd tekin árið 1986, um það leyti sem platan Whitney Houston heldur efsta sæti Billboard-listans í fjórtán vikur og lagið The Greatest Love Of All fer einnig á toppinn.
Mynd tekin árið 1986, um það leyti sem platan Whitney Houston heldur efsta sæti Billboard-listans í fjórtán vikur og lagið The Greatest Love Of All fer einnig á toppinn.
Söngkonan ástsæla Whitney Houston lést um síðustu helgi. Ferill hennar var frábær framan ef en dalaði mikið síðasta áratuginn í lífi hennar.

1985

Fyrsta platan, Whitney Houston, kemur út. Ballaðan Saving All My Love For You kemst á toppinn bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi. How Will I Know nær einnig toppsætinu í Bandaríkjunum.

1986

Platan Whitney Houston kemst í efsta sæti Billboard-listans í Bandaríkjunum og heldur því sæti í fjórtán vikur samfleytt. Smáskífulagið The Greatest Love Of All kemst á toppinn. Hún vinnur sín fyrstu Grammy-verðlaun.

1987-1988

Önnur platan, Whitney, lítur dagsins ljós og lagið I Wanna Dance With Somebody (Who Loves Me) fer á toppinn í Bandaríkjunum og Bretlandi. Næstu þrjú smáskífulög, Didn't We Almost Have It All, So Emotional og Where Do Broken Hearts Go komast einnig á toppinn. Þar með hefur Houston átt sjö smáskífulög í röð á toppnum í Bandaríkjunum og bætir þar með met Bítlanna og The Bee Gees. Houston vinnur sín önnur Grammy-verðlaun.

1990

Þriðja platan, I"m Your Baby Tonight, kemur út. Lögin I"m Your Baby Tonight og All the Man That I Need fara á toppinn í Bandaríkjunum.

1991

Syngur bandaríska þjóðsönginn, The Star Spangled Banner, í hálfleik Ofurskálarinnar. Flutningurinn fær frábærar viðtökur og lagið er gefið út á smáskífu.

1992

Giftist tónlistarmanninum Bobby Brown og ári síðar eignast þau dótturina Bobbi Kristina. Leikur í sinni fyrstu kvikmynd, The Bodyguard, á móti Kevin Costner. Hún fær misjafnar viðtökur gagnrýnenda en mjög góða aðsókn. Lagið I Will Always Love You verður gífurlega vinsælt og situr í toppsætinu í Bandaríkjunum í fjórtán vikur samfleytt.

1998-1999

Fyrsta platan í átta ár sem ekki tengist kvikmyndum, My Love Is Your Love, kemur út. Dúett Houston og Mariah Carey, When You Believe, úr teiknimyndinni The Prince of Egypt, vinnur Óskarsverðlaunin. Houston vinnur sín sjöttu Grammy-verðlaun.

2000

Ímynd hennar sem góða stúlkan bíður hnekki. Útliti hennar og heilsu hrakar, hún hættir að vera stundvís og grunur kviknar um eiturlyfjaneyslu hennar með eiginmanni sínum.

2002

Viðurkennir í viðtali við Diane Sawyer að hafa notað kókaín og önnur eiturlyf með Brown en neitar því að hafa notað krakk. Fimmta platan, Just Whitney, kemur út en fær ekki góðar viðtökur.

2006-2007

Sækir um skilnað við Bobby Brown eftir margra ára vandræði í hjónabandinu og árið eftir gengur skilnaðurinn í gegn. Houston fær forræði yfir dótturinni. Brown höfðar mál gegn Houston í von um að fá þeim dómi hnekkt en án árangurs.

2009

Gefur sitt fyrsta fjölmiðlaviðtal í sjö ár þegar hún ræðir við Oprah Winfrey. Þar viðurkennir hún að hafa notað eiturlyf daglega í hjónabandi sínu. Gefur út sína sjöundu og síðustu plötu, I Look to You, sem fær mjög góðar viðtökur. Fer í sína fyrstu tónleikaferð um heiminn í tíu ár. Ferðin gengur vel en einhverjir aðdáendur eru óánægðir með dalandi rödd Houston.

2012

Finnst látin á Beverly Hills-hótelinu í Kaliforníu, 48 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×