Lífið

Ævintýri með Of Monsters

Lay Low er mjög spennt fyrir tónleikaferðinni með Of Monsters and Men.
Lay Low er mjög spennt fyrir tónleikaferðinni með Of Monsters and Men.
„Þetta verður svakalegt ævintýri," segir tónlistarkonan Lay Low.

Hún hitar upp fyrir hljómsveitina Of Monsters and Men á stórri tónleikaferð um Bandaríkin og Kanada í mars og apríl. Tónleikarnir verða átján talsins og verða þeir fyrstu í Los Angeles 20. mars en þeir síðustu í Toronto 12. apríl.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu. Ég hef ekki túrað svona mikið í einu um Bandaríkin áður," segir Lay Low. „Það verður gaman að vera með krökkunum. Það er að ganga svona blússandi vel hjá þeim og allir í megastuði fyrir þeim úti, þannig að ég fæ að fljóta með í þessa miklu hamingju."

Hún verður ein á ferð með kassagítarinn og skilur því tónleikabandið sitt eftir í þetta sinn, enda kostar mikið að fara með heila hljómsveit vestur um haf. Aðspurð hvort hún geti ekki gefið nýliðunum Of Monsters and Men góð ráð í ferðinni segist hún vonast til þess enda búin að spila á sumum af þessum stöðum áður.

„En ég er alltaf að læra sjálf. Ég get ekki farið að miðla voða miklu, nema bara benda þeim á einhverja góða veitingastaði."

Hún gaf út plötuna Brostinn strengur fyrir síðustu jól en er strax byrjuð að taka upp nýja. Sú verður á ensku og er ætluð fyrir erlendan markað. Hún kemur líklega út í haust.

„Mér sýnist á öllu að ég verði að vinna í svipuðum „fíling" og á síðustu plötu," segir hún um upptökurnar. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.