Erlent

Rauði krossinn reynir að koma á vopnahléi

Fallinn Fallinn uppreisnarmaður sést borinn til grafar á mynd sem uppreisnarmenn í Sýrlandi hafa sent fjölmiðlum. Blaðamenn og ljósmyndarar fá ekki að koma til landsins.Fréttablaðið/AP
Fallinn Fallinn uppreisnarmaður sést borinn til grafar á mynd sem uppreisnarmenn í Sýrlandi hafa sent fjölmiðlum. Blaðamenn og ljósmyndarar fá ekki að koma til landsins.Fréttablaðið/AP
Stjórnvöld í Sýrlandi hafa sent liðsauka að borginni Homs, sem verið hefur höfuðvígi uppreisnarmanna í landinu undanfarna mánuði. Það þykir benda til þess að linnulausum sprengjuárásum á borgina verði fylgt eftir með innrás hersins, á sama tíma og Rauði krossinn reynir að koma á vopnahléi í landinu.

Uppreisnarmenn í Baba Amr-hverfinu í Homs heita því að berjast til síðasta blóðdropa komi til innrásar stjórnarhersins í borgina. Ástandið í hverfinu er sagt afar alvarlegt eftir sprengjuárásir hersins, en fjölmiðlafólki er meinað að kynna sér ástandið á átakasvæðunum.

„Mannfallið verður gríðarlegt ef herinn reynir að taka Baba Amr," segir Rami Abdul-Rahman, formælandi breskra mannréttindasamtaka sem láta sig ástandið í Sýrlandi varða. Hann segir að átta hafi látist í árásum hersins í gær.

Talsmaður Rauða krossins í Genf sagði í gær viðræður í gangi við stjórnvöld í Sýrlandi um tímabundið vopnahlé til að koma nauðþurftum til almennings á átakasvæðunum.

Stjórnarherinn virðist nú stefna á að gera innrás í Homs áður en þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá fer fram um næstu helgi. Uppreisnarmenn hafa gagnrýnt þjóðaratkvæðagreiðsluna, og segja fyrirhugaðar breytingar einskis virði.

„Við hvetjum fólk til að hafa þjóðaratkvæðagreiðsluna að engu, það er ekki hægt að ganga til atkvæða þegar stríðsátök eru í landinu," segir Omar Idilbi, talsmaður þjóðarráðs Sýrlands, búsettur í Beirút.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×