Erlent

Andófsmaður verður forseti

Joachim Gauck og Angela Merkel Forseti og kanslari Þýskalands verða bæði fyrrverandi Austur-Þjóðverjar.nordicphotos/AFP
Joachim Gauck og Angela Merkel Forseti og kanslari Þýskalands verða bæði fyrrverandi Austur-Þjóðverjar.nordicphotos/AFP
Joachim Gauck, 72 ára fyrrverandi prestur og fyrrverandi austur-þýskur andófsmaður, tekur við af Christian Wulff sem forseti Þýskalands.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sá sig nauðbeygða til að fallast á þetta um helgina eftir að Philipp Rösler, leiðtogi samstarfsflokks hennar í ríkisstjórninni, ákvað að styðja tillögu Sósíaldemókrata og Græningja.

Þetta er talinn verulegur ósigur fyrir Merkel, þar sem hún var fyrir tveimur árum andvíg því að Gauck yrði forseti, eins og Sósíaldemókratar og Græningjar vildu strax þá.

Þess í stað fékk Merkel því framgengt þá að Christian Wulff yrði fyrir valinu, en hann neyddist til að segja af sér í lok síðustu viku vegna gruns um spillingu.

Merkel er hins vegar sjálf prestsdóttir frá Austur-Þýskalandi, þannig að nú verða tvö æðstu embætti landsins í fyrsta sinn skipuð fyrrverandi Austur-Þjóðverjum.

Merkel tók fram að hún bæri fyllsta traust til Gaucks, þrátt fyrir fyrri andstöðu sína: „Við höfum bæði alið aldur okkar að hluta í Austur-Þýskalandi og draumur okkar um frelsi rættist árið 1989," sagði Merkel.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×