Skiptar skoðanir eru um fyrirhugaða hækkun á bílastæðagjöldum í miðborg Reykjavíkur. Fultrúi Sjálfstæðisflokks, sem er í minnihluta, segir hækkunina of bratta og óttast að hún verði til þess að hrekja fyrirtæki úr miðborginni. Formaður umhverfis- og samgönguráðs segir hins vegar að ráðstöfunin sé til þess fallin að bæta flæði í bílastæðamálum og auðvelda akandi gestum miðborgarinnar að fá stæði.
Umhverfis- og samgönguráð samþykkti fyrir skemmstu að hækka tímagjald á ýmsum svæðum í miðborginni. Á svæði 1 fari gjald fyrir klukkustundardvöl í stæði úr 150 krónum í 250 krónur, en á svæðum 2 og 4 fari gjald úr 80 krónum upp í 150. Breytingarnar eiga að taka gildi 15. apríl.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafa heyrt óánægjuraddir frá rekstraraðilum í miðborginni.
„Allir þeir sem ég hef talað við hafa áhyggjur af því að hækkunin gæti fælt í burtu viðskipti og þyngt róður fyrirtækja."
Kjartan gerir annars vegar athugasemd við að verðið hækki of skarpt og að ekki hafi verið haft samráð við verslunareigendur og aðra rekstraraðila í miðborginni.
„Ég vil ekki vera of svartsýnn, en ég óttast að ef þessi hækkun muni ríða yfir í einu vetfangi geti það jafnvel orsakað fjöldaflótta fyrirtækja úr miðborginni."
Karl Sigurðsson, formaður umhverfis- og samgönguráðs, svarar því hins vegar til að hækkun þessi sé einmitt til þess fallin að auka veg miðborgarinnar.
„Við lítum svo á að ef fólk sem fer akandi niður í bæ þarf jafnan að leita lengi eftir stæðum, þá sé það líklegra til að leita frekar í verslunarmiðstöðvarnar, sem gerir verslun í miðbænum lítinn greiða. Með hækkun bílastæðagjalda viljum við hins vegar stýra betur nýtingu á bílastæðum og auka flæði."
Karl segir að jafnan sé miðað við að 80 til 85 prósenta nýting á bílastæðum sé heppilegt hlutfall, en á gjaldsvæði sé hlutfallið hins vegar að nálgast 100 prósent.
„Við viljum koma þessu í jafnvægi þannig að ef þú kemur akandi niður í bæ, séu um tvö af hverjum átta stæðum laus."
Hagsmunasamtökin Miðborgin okkar mun á næstunni gangast fyrir viðhorfskönnun meðal félagsmanna sinna um bílastaæðamál og annað, en niðurstöður munu ekki liggja fyrir mjög fljótlega.
Gjaldahækkunin verður að öllum líkindum tekin fyrir á fundi borgarráðs í næstu viku.
thorgils@frettabladid.is

