Enski boltinn

Aron Einar: Klárlega stærsti leikurinn á mínum ferli

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Einar mun líklega ekki gefa neitt eftir á Wembley á morgun.
Aron Einar mun líklega ekki gefa neitt eftir á Wembley á morgun. Nordic Photos / Getty Images
Það verður stór stund í lífi knattspyrnukappans Arons Einars Gunnarssonar á morgun er hann gengur út á sjálfan Wembley ásamt félögum sínum í Cardiff City. Þar mun Cardiff mæta stórliði Liverpool í úrslitaleik deildarbikarsins.

„Þetta er klárlega stærsti leikurinn á mínum ferli og ég ætla að njóta þess að spila hann. Það munu margir fylgjast með og fólkið í Cardiff er mjög spennt. Það er fjöldi manna mættur til þess að kveðja okkur," sagði Aron Einar við Fréttablaðið skömmu áður en liðið hélt af stað til London í gær.

„Það er mjög fín stemning hjá okkur. Það er ró yfir mannskapnum en tilhlökkun samt. Það verða allir klárir á leikdegi," sagði Aron en Cardiff er klárlega litla liðið í leiknum. Hefur allt að vinna en engu að tapa.

„Það er jákvætt að vera minna liðið. Við þurfum ekkert að vera stressaðir. Ég vona að við höfum gaman af þessu og njótum þess að spila leikinn. Það er ekki á hverjum degi sem menn spila úrslitaleik á Wembley og ég tala nú ekki um gegn liði eins og Liverpool. Það er allt hægt í svona bikarúrslitaleik."

Fjöldi Íslendinga verður á vellinum og þar af margir ættingja Arons sem ætla ekki að missa af þessari stóru stund í lífi hans.

„Það eru allir að koma að norðan. Vinir og ættingjar. Margir vina minna halda með Liverpool og það verður því enn sætara ef við náum að skella þeim," sagði Aron og hló dátt.

„Það verður algjör draumur að labba inn á völlinn fyrir framan tæplega 90 þúsund manns. Ég verð örugglega með kúkinn í buxunum fyrstu tvær mínútur leiksins en svo fer það og ég fer að njóta leiksins. Ég er alltaf smá tíma í gang í stórleikjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×