Handbolti

Ásgeir Örn: Félagið er að fara að spýta í lófana

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ásgeir og Róbert munu spila handbolta í París næsta vetur.
fréttablaðið/vilhelm
Ásgeir og Róbert munu spila handbolta í París næsta vetur. fréttablaðið/vilhelm
Landsliðsmennirnir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson hafa báðir samþykkt að ganga í raðir franska félagsins Paris Handball næsta vetur.

„Þetta kom fyrst upp á EM og svo var framhald á þessu eftir EM og nú er allt klappað og klárt," sagði Ásgeir Örn en hann hefur leikið með Hannover-Burgdorf síðustu ár á meðan Róbert hefur verið að leika með Rhein-Neckar Löwen.

„Ég er að gera tveir plús einn samning en ég held að Robbi sé með þriggja ára samning. Það er margt heillandi við að fara þangað. Það á að spýta í lófana hjá félaginu. Við komum þrír núna og svo koma þrír í viðbót að ári. Það standa sterkir menn á bak við félagið sem ætla að eyða peningum. Það er líka gaman að prófa að búa í París og læra nýtt tungumál. Ég er spenntur fyrir nýju ævintýri."

Tvö lið falla úr frönsku deildinni og eru fjögur lið í þeirri baráttu. Paris Handball er eitt þeirra og situr í næstneðsta sæti í dag.

„Það væri ekkert spes ef liðið fellur. Maður vonar það besta en ef ekki þá tökum við þann slag með liðinu næsta vetur."

Það er verið að moka peningum í knattspyrnuliðið Paris St. Germain og það á einnig að gera handboltaliðið að einu því besta.

„Ég er mjög ánægður með minn samning. Þessi samningur er á pari við það sem menn eru að fá í Þýskalandi. Ég er ekki að gera lélegri samning," sagði Ásgeir aðspurður um hvort það væru einhver ofurlaun hjá liðinu.

Hannover-Burgdorf vildi halda Ásgeiri og bauð honum samning sem hann hafnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×