Tónlist

Fjórtán dómarar í Wacken

Blaðamaðurinn Arnar Eggert Thoroddsen og Krummi verða á meðal fjórtán dómara á Wacken.
Blaðamaðurinn Arnar Eggert Thoroddsen og Krummi verða á meðal fjórtán dómara á Wacken.
Fjórtán dómarar verða í hljómsveitakeppninni Wacken Metal Battle á Nasa á laugardaginn. Níu þeirra eru erlendir.

Níu erlendir dómarar verða í hljómsveitakeppninni Wacken Metal Battle Iceland sem verður haldin á Nasa á laugardagskvöld í fjórða sinn. Tveir þeirra koma frá bresku og þýsku útgáfu tímaritsins Metal Hammer og tveir til viðbótar eru sænskir blaðamenn. Fimm íslenskir dómarar verða einnig í hópnum, eða blaðamaðurinn Arnar Eggert Thoroddsen, Sigvaldi Jónsson af Rás 2, Krummi í Mínus, Kiddi í Smekkleysu og Stefán Magnússon frá Eistnaflugi. Alls verða dómararnir því fjórtán talsins sem er mesti fjöldinn til þessa. Sigursveitin heldur utan til Þýskalands þar sem lokakeppnin fer fram í ágúst á Wacken Open Air, sem er stærsta þungarokkshátíð veraldar. Í fyrra var Wacken Metal Battle haldin á Sódómu en í þetta sinn verður hún á Nasa þar sem plássið er töluvert meira.

Skipuleggjandinn Þorsteinn Kolbeinsson lofar því að keppnin verði sú flottasta til þessa og er alveg sama þótt hann nái ekki að fylla staðinn. „Ég hef engar áhyggjur af því að það verði ekki flott stemning og góð mæting," segir hann. Til að tryggja góðan hljóm á Nasa mun hljóðmaður frá þýsku Wacken-hátíðinni stjórna tökkunum í fyrsta sinn. Húsið opnar kl. 19.30 og klukkutíma síðar hefst rokkveislan. Sex hljómsveitir taka þátt og þrjár gestasveitir spila einnig, eða Bastard, Atrum, sem vann keppnina í fyrra, og Sólstafir, sem stígur síðust á svið. „Það er mikil eftirvænting hjá blaðamönnum yfir þeim," segir Þorsteinn um Sólstafir. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×