Íslenski boltinn

Áfram á Stöð 2 Sport

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Fram og Keflavíkur frá síðasta tímabili í Pepsi-deildinni.
Úr leik Fram og Keflavíkur frá síðasta tímabili í Pepsi-deildinni. Mynd/Vilhelm
365 miðlar hafa komist að samkomulagi við Sportfive um sýningarrétt frá leikjum Pepsi-deildar karla og kvenna sem og bikarkeppnum. Gildir samningurinn til næstu tveggja ára.

„Þetta er réttur sem við höfum haft til margra ára og höfum við nú framlengt samninginn," sagði Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri RÚV, sendi frá sér tilkynningu í gær sem segir að Sportfive, sem keypti sjónvarpsréttinn af KSÍ á sínum tíma, hafi hafnað tilboði RÚV í sýningarrétt frá landsleikjum. KSÍ svaraði því á heimasíðu sinni í gær og sagði að sýningarrétturinn á landsleikjum væri enn óseldur.

„Nú fer fljótlega í gang viðræðuferli um landsleikina og útilokum við ekkert í þeim efnum," sagði Pálmi. „Nú er þessi samningur í höfn og munum við áfram sinna umfjöllun um íslenska boltann af miklum metnaði eins og áður."

Óvíst er hvort RÚV verði með vikulegan þátt um íslenska boltann eins og verið hefur en Pálmi segir að myndir frá leikjum verði áfram sýndar í fréttum RÚV.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×