Lífið

Pabbi rót fylgir The Vintage Caravan til Rúmeníu

The Vintage Caravan.
The Vintage Caravan. Mynd/Anton
„Við verðum vonandi landinu til sóma," segir Óskar Logi Ágústsson, söngvari og gítarleikari The Vintage Caravan.

Rokktríóið vann íslensku undankeppni hljómsveitakeppninnar Global Battle of the Bands um helgina og tryggði sér þar með þátttökurétt í lokaúrslitunum sem verða haldin í Rúmeníu í júní.

„Þetta gekk framar okkar vonum því við bjuggumst ekkert við því að vinna þetta. Það verður mikill stökkpallur fyrir okkur að fara út," segir Óskar Logi. „Við ætluðum að reyna að fara eitthvað út í sumar en vorum eiginlega búnir að gefast upp á því. Við ætluðum að gera þetta vel árið 2013 en síðan rættist sá draumur að fara til útlanda í fyrsta sinn að spila."

The Vintage Caravan sækir innblástur sinn í klassískt rokk frá árunum í kringum 1970 frá sveitum á borð við Led Zeppelin, Cream, Deep Purple, Jimi Hendrix, Trúbroti og Óðmönnum. Meðal nýlegra sveita í uppáhaldi eru The Mars Volta og The Black Keys.

Hljómsveitin hét upphaflega The Vintage og tók þátt í Músíktilraunum árið 2009 þar sem hún lenti í þriðja sæti. Óskar Logi var jafnframt valinn gítarleikari keppninnar. Haustið 2010 breyttist nafnið í The Vintage Caravan og sveitin spilaði á Iceland Airwaves. Fyrsta platan kom í verslanir í maí í fyrra eftir að sveitin gerði dreifingarsamning við Senu.

Strákarnir voru mjög duglegir við tónleikahald í fyrra og spiluðu tvisvar til þrisvar sinnum um hverja helgi. „Það var alveg brjálað að gera. Við spiluðum okkur dálítið inn á kortið," segir Óskar Logi. Fimm laga stuttskífa kom svo út í febrúar til að minna fólk á hljómsveitina.

Þeir félagar koma frá Álftanesi og eru allir í menntaskóla. Foreldrar þeirra hafa verið duglegir við að styðja við bakið á þeim og til dæmis var pabbi Óskars að stilla upp hljóðfærunum fyrir strákana á Gauknum um helgina. „Hann er kallaður pabbi rót. Hann kemur og rótar og hlustar. Pabbi hefur ekki misst af tónleikum með okkur í einhver tvö ár. Það er alltaf flott að hafa gamla karlinn á kantinum," segir hann og býst fastlega við því að „sá gamli" komi með til Rúmeníu.

Spurður hvernig hann metur möguleika The Vintage Caravan í Rúmeníu þar sem sigurlaunin eru tæpar þrettán milljónir króna segir Óskar Logi: „Við vonum bara það besta. Við trúum alveg á okkur sjálfa og reynum að rúlla þessu upp."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.