Skoðun

Kæri borgarfulltrúi - hver er þín skoðun?

Það er sérstakt að nú tveimur mánuðum áður en þú þarft að taka ákvörðun – óafturkræfa ákvörðun – veit almenningur ekkert hvað þú vilt, hvað þú telur best fyrir okkur borgarbúa, hvernig þín sýn er fyrir alla framtíð. Oft hef ég fengið að vita afstöðu minna fulltrúa í einstökum málum og verið sammála eða ósammála.

Nú vill svo til að þú – minn borgarfulltrúi – þarft mjög bráðlega að taka afdrifaríka ákvörðun um framtíð miðborgarinnar og ég veit enn ekkert um afstöðu þína.

En sem sagt; eftir tvo mánuði átt þú að taka ákvörðun um hvort byggja eigi stórt hótel við Vallarstræti, sem mun tengjast Landsímahúsinu og einnig hóteli sem stendur við Austurstræti. Það er ófært að bera því við að niðurstaða sé ekki fengin í samkeppni, þar sem grunnstefið er eftir sem áður risahótel og lóðareigandi situr beggja vegna borðsins; gæti sent inn tillögu, greitt henni sitt atkvæði og fengið verðlaun frá sjálfum sér og okkur borgarbúum.

Því spyr ég ykkur, Karl Sigurðsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Sóley Tómasdóttir – (öll mínir borgarfulltrúar):

- Hefur þú myndað þér skoðun á því hvernig heildaryfirbragð Kvosarinnar á að vera?

- Hefur þú myndað þér skoðun á hvort sá reitur sem afmarkaður er af Ingólfstorgi, Austurvelli, Alþingishúsinu og Fógetagarði eigi að vera eitt risahótel?

- Hefur þú velt því fyrir þér hvernig aðkoma bíla að slíku hóteli ætti að vera og hvaða gata eigi að þjóna þeirri umferð, þá sérstaklega á sumrin þegar götum í miðborginni er lokað?

Vegna þess að ég og margir aðrir vita ekki hver afstaða þín er, óska ég eindregið eftir svari við þessum spurningum. Svörin varða ekki einungis mig og borgarbúa heldur alla landsmenn.




Skoðun

Sjá meira


×