Grímuklæddur ræningi komst undan á hjóli eftir að hafa rænt kjörbúð í Vissenberg á Fjóni í fyrrakvöld. Hann bar þungar klyfjar á flóttanum enda var meginþorri ránsfengsins, 30 þúsund danskra króna, í smámynt.
Ræninginn ógnaði ungri starfsstúlku og þvingaði hana til að opna peningahirslu þar sem fjármunirnir voru. Eftir það batt hann stúlkuna og hélt á brott.
Myndir náðust af ræningjanum og stúlkan gat auk þess lýst vexti mannsins og klæðnaði. Lögreglan á Fjóni rannsakar málið.- þj
