Innlent

Stefnir í þriðja stjórnsýslustigið

Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson
Aukið hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga í tengslum við yfirtöku verkefna frá ríkinu stefnir í að upp byggist þriðja stjórnsýslustigið á Íslandi, sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, á landsþingi sambandsins á föstudag.

Halldór benti á að við yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga hafi verið miðað við að hvert þjónustusvæði væri með að lágmarki 8.000 íbúa. Aðeins sjö af 75 sveitarfélögum uppfylli það skilyrði. Því hafi sveitarfélögin þurft að taka upp samstarf í þessum málaflokki.

„Ef það sama mun verða reyndin þegar þjónusta við aldrað fólk, og hugsanlega heilsugæsla einnig, verður tekin yfir af sveitarfélögunum má segja að einhvers konar þriðja stjórnsýslustig geti verið að myndast hér á landi," sagði Halldór í erindi sínu. Hann sagði mikilvægt að vanda til flutnings verkefna og ætla rúman tíma til þess.

„Við verðum að ræða þann lýðræðishalla sem mun eiga sér stað ef aukin verkefni og ábyrgð flytjast til byggðasamlaga eða landshlutasamtaka sem ekki bera beina ábyrgð gagnvart íbúunum þar sem þeir koma ekki að beinni kosningu í stjórnir slíkra samstarfsverkefna." - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×