Innlent

Veikindi ekki vegna mengunar

hross hnotabítast
Ábúandi á bænum Kúludalsá tengdi veikindi hrossa sinna við mengun frá iðjuverum í Hvalfirði. Svo reyndist ekki vera. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
fréttablaðiÐ/gva
hross hnotabítast Ábúandi á bænum Kúludalsá tengdi veikindi hrossa sinna við mengun frá iðjuverum í Hvalfirði. Svo reyndist ekki vera. Myndin tengist ekki fréttinni beint. fréttablaðiÐ/gva
Veikindi hrossa á bænum Kúludalsá í Hvalfirði eru ekki af völdum mengunar iðjuveranna á Grundartanga, er niðurstaða rannsóknar Matvælastofnunar og Tilraunastöðvarinnar á Keldum. Veikindi hrossanna má rekja til efnaskiptaröskunar.

Matvælastofnun barst þann 19. maí 2011 erindi frá ábúanda á Kúludalsá í Hvalfirði með ósk um rannsókn á veikindum hrossa á bænum með tilliti til mengandi efna frá útblæstri iðjuveranna á Grundartanga.

Rannsóknin fólst í skoðun á hrossunum, rannsóknir á líffærum þriggja hrossa frá Kúludalsá, skoðun á líffærum, þ.m.t. tönnum, vefjaskoðun á líffærum og röntgenskoðun á hófum og leggjum. Þá var flúor mælt í beinvef og þungmálmar í lifur.

Niðurstöður þessara rannsókna gefa engar vísbendingar um að hrossin hafi orðið fyrir eitrun af völdum flúors eða þungmálma.

Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að veikindin megi rekja til efnaskiptaröskunar og krónískrar hófsperru af þeim sökum. Hross sem hafa verið feit frá unga aldri og einkum þau sem safna fitu staðbundið í makka eru líklegust til að fá þessa röskun.

Hófsperra er sársaukafullur sjúkdómur sem með tímanum kemur niður á holdafari hrossa. Erfitt er að lækna sjúkdóminn eftir að hann hefur þróast. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×