Lífið

Gamall pylsuvagn verður hverfasjoppa

Skerfirðingar hafa verið án matvöruverslunar síðan Skerjaver lokaði árið 2008.
Skerfirðingar hafa verið án matvöruverslunar síðan Skerjaver lokaði árið 2008. Mynd/Valli
„Við vorum einfaldlega orðin langþreytt á því að þurfa alltaf að setjast upp í bíl til ná í einn mjólkurpott eða nýtt brauð," segir Sigurður Jens Sæmundsson sem ásamt eiginkonu sinni, Hildi Örnu Hjartardóttur, hefur opnað verslunina Braggann í Skerjafirði.

Verslunin er sérstök að því leytinu til að hún er gamall pylsuvagn sem hjónin keyptu á netinu. „Konan mín var andvaka á nýársnótt og sá þá þennan gamla pylsuvagn til sölu á netinu. Við ákváðum því að kýla á þetta og opna lítið kaupfélag í vagninum," segir Sigurður en verslunin er staðsett á lóð Reykjavíkurborgar á gatnamótum Bauganess og Einarsness.

„Við fáum að vera hér í þrjá mánuði til að byrja með en okkur skilst að þetta sé eini matsöluvagninn sem er inni í íbúðahverfi en hingað til hafa þeir haldið sig í miðbænum." Sigurður og Hildur eru bæði í fullri vinnu en stefna á að ráða til sín starfsmann og halda búðinni opinni á hverjum degi frá 11-20.

Íbúar hverfisins hafa tekið versluninni vel en Bragginn opnaði fyrir skemmstu. Skerfirðingar hafa verið án matvöruverslunar síðan Skerjaver lokaði árið 2008 en næsta búð fyrir íbúa hverfisins er hjá Stúdentagörðunum.

„Við dreifðum auglýsingu í hvert hús og höfum fengið 100% jákvæð viðbrögð. Það sakar ekki að láta reyna á þetta og ég vona að við séum komin til að vera," segir Sigurður en vöruúrval Braggans er mjög fjölbreytt. „Við erum með grill og djúpsteikingarpott og í vagninum eru fjórir kælar. Við erum því með allt frá hamborgaratilboðum í smjör, ost og eyrnapinna." -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.