Lífið

Árni Sveins eins og fluga á vegg hjá Bubba

Árni Sveinsson kvikmyndagerðamaður hefur nýlokið við heimildamynd um Bubba sem kemur út samhliða nýju plötunni í vor.
Árni Sveinsson kvikmyndagerðamaður hefur nýlokið við heimildamynd um Bubba sem kemur út samhliða nýju plötunni í vor.
„Við Bubbi erum orðnir mestu mátar, hann kallaði mig allavega elskuna sína í morgun,“ segir kvikmyndagerðamaðurinn Árni Sveinsson sem er að leggja lokahönd á heimildamynd um tónlistarmanninn.

Heimildamyndin fylgir með nýjustu plötu Bubba sem er væntanleg með vorinu, en þar er fylgst með upptökuferli plötunnar. Árni hefur því fylgt Bubba eftir síðusta þrjár vikurnar. „Ég er búinn að vera eins og fluga á vegg hjá Bubba undanfarið og þetta hefur verið skemmtilegt ferli,“ segir Árni en myndin hefur ekki ennþá fengið nafn. Myndin er tæpur klukkutími á lengd og í henni kemur Mugison fram meðal annarra, en hann og Bubbi syngja saman lagið Þorpið sem er á plötunni. „Ég er mjög ánægður með útkomuna, þetta er alvöru stöff,“ segir Árni.

Árni segist ekki vera neinn sérstakur Bubba aðdáandi en hann ber hins vegar mikla virðingu fyrir tónlistarmanninum. „Ég get ekki sagt að ég sé beint aðdáandi en ég kann mjög vel að meta tónlistina hans. Það er einmitt fyndið að segja frá því að platan Sögur af landi er fyrsta platan sem ég fékk í jólagjöf,“ segir hann.

„Í myndinni sjáum við aftur sagnamanninn Bubba og ég á von á því að þessi plata verði sú sem aðdáendur Bubba hafa verið hvað mest að bíða eftir. Það má segja að Bubbi sé að snúa aftur til upprunans,“ segir Árni sem beið spenntur eftir símatali frá Bubba sem var að fara að sjá myndina í fyrsta sinn í gær. „Það er vonandi að þetta leggist vel í hann og að við séum enn þá góðir mátar á morgun.“ -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.