Lífið

Magnús og Michelle verðlaunuð

Verðlaunaður Magnús Scheving hlaut Mediterranean Foundation verðlaunin fyrir að stuðla að auknu heilbrigði meðal barna. Michelle Obama fékk verðlaun frá sömu samtökum.fréttablaðið/anton
Verðlaunaður Magnús Scheving hlaut Mediterranean Foundation verðlaunin fyrir að stuðla að auknu heilbrigði meðal barna. Michelle Obama fékk verðlaun frá sömu samtökum.fréttablaðið/anton
Magnús Scheving hlaut viðurkenningu frá Mediterranean Foundation á fimmtudaginn fyrir að stuðla að auknu heilbrigði meðal barna. Viðurkenningin var veitt í Barcelona og hlaut Michelle Obama, forsetafrú Bandaríkjanna, einnig viðurkenningu frá samtökunum í ár.

Viðurkenningin er veitt annað hvert ár þeim aðilum er skarað hafa fram úr með starfi sínu á sviði hollustu og hreyfingar. Magnús hlaut viðurkenningu fyrir Latabæ og starf sitt í þágu aukins heilbrigðis barna, aðrir er hlutu viðurkenningu á sama sviði voru Michelle Obama og Barcelona Football Club Foundation.

Hrefna Björk Sverrisdóttir, verkefnastjóri Latabæjar, segir viðurkenninguna mikinn heiður fyrir Magnús og Latabæ. „Það er mikið og gott starf sem fer fram á bak við sjónvarpsþættina. Latibær vinnur náið með ýmsum ríkisstjórnum og samtökum til að stuðla að heilbrigði barna og það er verið að veita viðurkenningu fyrir það.“

Nýverið hóf breska ríkissjónvarpið BBC aftur sýningar á Lazytown Extra og horfðu um 2,48 milljón manns á fyrsta þáttinn. Latibær er sýndur í um 170 löndum víða um heim og horfa um 500 milljón manna á þá reglulega.

Um þessar mundir er verið að undirbúa tökur fyrir þriðju þáttaröð Latabæjar en áætlað er að tökur hefjist í apríllok. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.