Innlent

Segist ekki hafa vitað af veiðibanni á kóralsvæði

Í Vestmannaeyum Norska skipið Ny Argo, sem staðið var að ólöglegum veiðum í Skeiðarárdjúpi, kom til Vestmannaeyja í gærkvöldi.mynd/Óskar P. Friðriksson
Í Vestmannaeyum Norska skipið Ny Argo, sem staðið var að ólöglegum veiðum í Skeiðarárdjúpi, kom til Vestmannaeyja í gærkvöldi.mynd/Óskar P. Friðriksson
Magne Dyb, skipstjóri á norska línuveiðiskipinu Ny Argo, segist ekki hafa vitað að hann hafi verið á línuveiðum á bannsvæði. Þetta kom fram í viðtali norska útvarpsins við hann í gærmorgun.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær stóð Landhelgisgæslan skipið að meintum ólöglegum veiðum í Skeiðarárdjúpi, nærri 30 sjómílum suður af Ingólfshöfða, í fyrradag. Var skipstjóranum skipað að sigla til hafnar og kom skipið til Vestmannaeyja í fyrrakvöld og yfirheyrði lögreglan skipverjana þegar í stað.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum vonast til að hægt verði að dómtaka málið á næstu dögum. Sektin getur numið allt að fjórum milljónum króna. Óvíst er hvort skipstjórinn bíði eftir dómnum því útgerð skipsins getur lagt fram tryggingu vegna sektarinnar. Eftir það getur skipið lagt úr höfn.

Ny Argo ætlaði aðallega að veiða löngu á svæðinu, en samkvæmt reglugerð um verndun kóralsvæða úti af Suður- og Suðvesturlandi er bannað að veiða annað en uppsjávarfisk á svæðinu.

Bæði skipstjórinn og útgerðarmaður skipsins segjast hafa skoðað heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskistofu áður en haldið var á miðin, og ekki getað fundið neitt um bannið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×