Lífið

Fæ loksins að standa á sviðinu

Guðrún Dís Emilsdóttir skiptir starfsfélaga sínum Andra Frey Viðarssyni út fyrir Vilhelm Anton Jónsson og saman kynna þau Söngkeppni framhaldsskólanna á laugardaginn.
Guðrún Dís Emilsdóttir skiptir starfsfélaga sínum Andra Frey Viðarssyni út fyrir Vilhelm Anton Jónsson og saman kynna þau Söngkeppni framhaldsskólanna á laugardaginn. Fréttablaðið/daníel
„Þetta leggst rosalega vel í mig og verður mjög gaman,“ segir útvarpskonan Guðrún Dís Emilsdóttir sem, ásamt Vilhelm Antoni Jónssyni, sér um að kynna Söngkeppni framhaldsskólanna í ár.

Keppnin fer fram í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda á laugardagskvöldið og verður sjónvarpað beint í Ríkissjónvarpinu. Í ár er keppnin með öðruvísi sniði en fyrri ár. Tólf skólar keppa í úrslitakeppninni á laugardaginn eftir sms-kosningu sem hefur staðið yfir undanfarið milli 32 menntaskóla víðs vegar af landinu. „Það hefur myndast skemmtileg stemning í kringum þetta í ár og mér skilst að það eigi að tjalda öllu til á laugardaginn.“

Þó að Guðrún sé vanari að koma fram með Andra Frey Viðarssyni sér við hlið er hún viss um að hún og Vilhelm eigi eftir að spjara sig vel saman. „Við Villi þekkjumst vel. Við erum gamlir skólafélagar frá Menntaskólanum á Akureyri svo við ættum að geta grínast saman,“ segir Guðrún sem hefur löngum verið mikill aðdáandi keppninnar.

„Ég horfði alltaf á keppnina einu sinni og langaði í raun rosalega mikið að taka þátt. En það gerði ég aldrei en fæ loksins að standa á sviði í keppninni, nema á öðrum forsendum,“ segir Guðrún og fullyrðir að keppendurnir séu hver öðrum betri.

„Ég dáist að þessum krökkum, þeir eru magnaðir. Keppnin er líka þekkt fyrir að ala af sér stjörnur framtíðarinnar svo ég verð með augun opin á laugardaginn.“ Keppnin sjálf er á dagskrá RÚV á laugardaginn klukkan 20.40.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.