Lífið

Í blíðu og stríðu fyrir Eurovision

Eyrún Elly er hér í miðjunni, ásamt þeim Ölmu Tryggvadóttur og Auði Geirsdóttur samstjórnakonum sínum úr FÁSES.
Eyrún Elly er hér í miðjunni, ásamt þeim Ölmu Tryggvadóttur og Auði Geirsdóttur samstjórnakonum sínum úr FÁSES. Fréttablaðið/anton
„FÁSES er fyrir Eurovision svipað og félagið Í blíðu og stríðu er fyrir handboltann. Það skapast oft leiðinleg umræða í kringum framlagið okkar og keppendunum veitir ekki af stuðningsneti sem stendur við bakið á þeim í blíðu og stríðu,“ segir Eyrún Elly Valsdóttir, formaður Félags áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, FÁSES.

FÁSES er opinber aðdáendaklúbbur á Íslandi fyrir Eurovision-söngvakeppnina og er með um 100 greiðandi meðlimi. Klúbburinn var stofnaður í september 2011 og tilheyrir alþjóðlegu samtökunum OGAE sem er með um 10.000 félagsmenn um alla Evrópu. „Við stöndum fyrir alls kyns uppákomum í tengslum við keppnina auk þess sem við höldum úti öflugri síðu á Facebook undir heitinu FÁSES-OGAE,“ segir Eyrún Elly. Sex einstaklingar skipa stjórn klúbbsins, fjórar konur og tveir menn, en öll eiga þau það sameiginlegt að vera miklir aðdáendur Eurovision og hafa farið utan til að vera viðstödd aðalkeppnina.

Eyrún Elly segist hafa góða tilfinningu fyrir íslenska framlaginu í ár og telur að Greta og Jónsi komi til með að gera góða hluti í Bakú. „Lagið kom merkilega vel út á ensku og svo hjálpar það alveg til hvað er mikið af lélegum lögum í ár. þó mörg þeirra séu reyndar svo vond að þau verða algjör snilld,“ segir Eyrún Elly og bætir við að hennar uppáhaldslag í keppninni sé það sænska, en að enska lagið hafi líka komið henni skemmtilega á óvart.

- trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.