Innlent

Nýr biskup verður valinn í dag

Sigurður Árni Sigurður Árni er prestur í Neskirkju og hlaut næstflest atkvæði í fyrri umferðinni.
Sigurður Árni Sigurður Árni er prestur í Neskirkju og hlaut næstflest atkvæði í fyrri umferðinni.
Nýr biskup þjóðkirkju Íslands verður valinn í dag. Talningu í seinni umferð atkvæðagreiðslu um biskupskjörið lýkur seinni partinn, en hún hefst klukkan tíu. Talningin fer fram á háalofti Dómkirkjunnar, líkt og hefur tíðkast áður.

Eftir fyrri kosninguna, standa þau Agnes M. Sigurðardóttir, sóknarprestur í Bolungarvík, og Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, eftir sem möguleg biskupsefni. Agnes fékk 131 atkvæði, eða 27,5 prósent. Sigurður Árni fékk 120 atkvæði, eða 25,2 prósent.

Agnes segist afar róleg yfir úrslitum dagsins. „Ég er ekkert spennt og tek þessu með ró," segir hún. „En ég er nokkuð bjartsýn."

Sigurður Árni tekur í sama streng: „Ég er fullkomlega æðrulaus yfir þessu og hef gaman af," segir hann. „Þetta er bara eins og í fótboltanum, það er annað liðið sem vinnur."

Alls voru 502 seðlar sendir út og var þátttaka góð samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×