Innlent

SA kynnir áætlun um afnám hafta

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson
Samtök atvinnulífsins (SA) hafa kynnt áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem er að mörgu leyti frábrugðin þeirri áætlun sem stjórnvöld og Seðlabankinn vinna eftir.

„Áætlunin snýst um að afnema gjaldeyrishöftin á tímanum fram til áramóta. Í henni felast aðgerðir sem eiga að leysa vandamálið sem til staðar er áður en höftin yrðu formlega afnumin um áramótin og gjaldeyrisviðskipti gefin frjáls," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Vilhjálmur segir áætlun stjórnvalda ekki vera að ganga upp og bætir við að áætlun SA sé ekki bara valkostur við hana heldur mun betri áætlun. „Sem stendur er alltof lítið að gerast annað en að frumvörp séu lögð fram um að herða höftin og refsingar við brotum við þeim. Það skortir ákveðni og trúverðugleika í þá áætlun sem unnið er eftir," segir Vilhjálmur.

Í áætlun sinni leggur SA til að Alþingi samþykki lög um afnám haftanna sem taki gildi um næstu áramót. Lögin myndu fela í sér heimildir til kaupa innlendra aðila á aflandskrónum, útgáfu ríkisins á evruskuldabréfum í skiptum fyrir ríkistryggð skuldabréf í eigu erlendra aðila, heimildir banka til útgáfu evruskuldabréfa í skiptum fyrir innistæður í bönkum, útgönguskatt og mótvægisaðgerðir fyrir þá hópa sem kynnu að lenda í vanda vegna mögulegs falls krónunnar.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×