Lífið

Kviknaktir á umslagi fyrstu plötunnar

Meðlimir hljómsveitarinnar Kiriyama Family eru naktir á umslagi sinnar fyrstu plötu. Að sögn Víðis Björnssonar bíða félagarnir spenntir eftir útgáfudeginum.
Meðlimir hljómsveitarinnar Kiriyama Family eru naktir á umslagi sinnar fyrstu plötu. Að sögn Víðis Björnssonar bíða félagarnir spenntir eftir útgáfudeginum.
„Við erum allir mjög spenntir fyrir útgáfunni, næstum eins og krakkar að bíða eftir jólunum,“ segir Víðir Björnsson, gítarleikari Kiriyama Family, um fyrstu plötu hljómsveitarinnar sem kemur út þann 7. maí. Platan hefur hlotið nafnið Kiriyama Family og mynd af kviknöktum meðlimum sveitarinnar prýðir plötuumslagið.

„Við ræddum saman um hvernig við vildum hafa umslagið á plötunni og vorum sammála um að við vildum hafa það svolítið gamaldags. Í gamla daga var oftast mynd af hljómsveitinni sjálfri framan á plötuumslaginu og við ákváðum að fara þá leið,“ útskýrir Víðir og bætir við að þeim hafi ekki þótt tiltökumál að fækka fötum fyrir myndatökuna. „Við erum allir svo nánir og það er enginn metingur í gangi. Við erum eins og ein stór fjölskylda.“

Myndatakan sjálf tók ekki langan tíma að sögn Víðis en undirbúningurinn fyrir hana tók tvo daga enda var þakkarlistinn sem og lagatextinn málaður á bera kroppa hljómsveitarmeðlimanna. „Eins og sést kannski á myndinni vorum við ekki grimmir í ræktinni fyrir tökuna. Það tók lengstan tíma að mála alla textana á okkur og við fengum kærustur og vinkonur til að aðstoða okkur við það.“

Kiriyama Family, sem einnig er skipuð þeim Jóhanni V. Vilbergssyni, Karli M. Bjarnarsyni, Guðmundi Geir Jónssyni og Bassa Ólafssyni, spilar svokallað electro-popp. Innblásturinn sækja þeir að einhverju leyti til Svíþjóðar, þaðan sem margir efnilegir tónlistarmenn koma að sögn Víðis.

Piltarnir ætla að fylgja frumrauninni eftir í vor og sumar með tónleikahaldi og er platan að auki komin í forsölu á Netinu.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.