Lífið

Framleiða glerlíffæri Siggu Heimis

Sigga Heimis iðnhönnuður hefur getið sér gott orð fyrir hönnun sína. Árið 2007 hannaði hún glerlíffæri til að vekja athygli á slæmu ástandi í líffæragjöfum í dag.
Sigga Heimis iðnhönnuður hefur getið sér gott orð fyrir hönnun sína. Árið 2007 hannaði hún glerlíffæri til að vekja athygli á slæmu ástandi í líffæragjöfum í dag.
Hið virta glerlistasafn Corning Museum of Glass í New York, CMOG, hefur hafið framleiðslu á glerlíffærum úr smiðju iðnhönnuðarins Siggu Heimis. Safnið hefur unnið með fjölda þekktra og verðlaunaðra hönnuða á borð við Matali Crasset, James Irvine og Fernando og Humberto Campana að gerð hluta í takmörkuðu upplagi. Verk Siggu verða þau fyrstu sem það fjöldaframleiðir.

„Þetta er merkilegt fyrir þær sakir að í fyrsta skipti er safnið að fara að vinna markvisst með hönnuði," segir Sigga sem heldur vestur um haf 13. maí til þess að gefa grænt ljós á fyrstu framleiðsluna.

Að hennar sögn verða glerlíffærin til að byrja með seld í verslun CMOG sem hefur hingað til aðeins boðið hluti í fáeinum eintökum. Hún segir svo stefnt að því að selja verkin á völdum söfnum eins og Cooper-Hewitt, MoMa í New York og bandaríska hönnunarsafninu sem CMOG á í samstarfi við.

Vekur athygli á mikilvægu málefni
Hjarta úr gleri.
Sigga hóf vinnu við glerlíffærin árið 2007 þegar henni bauðst að halda sýningu á CMOG. Hún segist hafa hannað líffærin meðal annars til að efla umræðu og fræðslu um líffæragjöf sem hún segir að ekki sé í nógu góðum farvegi í dag.

„Að vel athuguðu máli komst ég að því að líffæragjafalistar reyndust víða vera fátæklegir og fólk í þriðja heims ríkjum reiðubúið að selja úr sér líffæri gegn greiðslu," nefnir hún.

Sýningin á CMOG vakti mikla athygli á sínum tíma og síðan þá hefur kröftug umræða um líffæragjöf skapast þar sem Sigga hefur sýnt glerlíffærin.

„Okkur hefur greinilega tekist að hreyfa við fólki. Bæði er glerið heillandi efni og svo virðist sem líffæraumræðan tali til margra," bendir hún á og bætir við að frá 2007 hafi CMOG borist fjöldi fyrirspurna, frá læknum, fjölmiðlum og einkaaðilum sem vilja kaupa eintök af verkum hennar. Þessi gríðarlegi áhugi hafi átt þátt í því að safnið vildi fjöldaframleiða verkin.





Sýnir á stórri glerlistasýningu
Sigga hannaði glerrlífærin meðal annars til að vekja athygli á slæmu ástandi á líffæragjöf í dag.
Óhætt er að segja að skammt sé stórra högga á milli hjá Siggu því henni hefur nú í annað sinn verið boðin þátttaka í sýningu á CMOG sem verður opnuð 19. maí.

Á sýningunni, sem ber yfirskriftina Making Ideas: Experiments in Design at GlassLab, verða til sýnis glerlistaverk eftir 150 virta hönnuði.

Hluti hennar verður helgaður líffærum og þar verða verk Siggu í sviðsljósinu.

Nánar má fræðast um sýninguna á heimasíðu CMOG. -rve






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.