Lífið

Sækist ekki eftir frægð og frama

7oi er á leiðinni í sína fyrstu tónleikaferð á ferlinum.
fréttablaðið/gva
7oi er á leiðinni í sína fyrstu tónleikaferð á ferlinum. fréttablaðið/gva
Tónlistarmaðurinn 7oi, sem heitir réttu nafni Jóhann Friðgeir Jóhannsson, er á leið í sína fyrstu tónleikaferð. Hún hefst í Póllandi í byrjun maí og spilar hann þar fimm sinnum á jafnmörgum dögum.

Aðspurður segist hann aldrei hafa sóst mikið eftir því að spila á tónleikum á fimmtán ára ferli sínum. „Kannski er þetta smávægileg feimni eða eitthvað þannig. Maður er vanur því að sitja einn fyrir framan tölvuna. Ég geri þetta mér til ánægju en ef öðrum finnst þetta skemmtilegt líka er það bara gaman,“ segir Jóhann, sem spilar lágstemmda tónlist með rafrænum áhrifum.

Hann vill því ekki meina að draumur sé að rætast með ferðinni til Póllands. „Ég er svo sem ekkert að sækjast eftir neinni frægð eða frama. Mér finnst bara gaman að lenda í ævintýri, það er aðalástæðan fyrir því að ég er til í þetta.“

Jóhann hefur gefið út sjö plötur á eigin vegum síðan 1999 og er með eina nýja í bígerð. Hann er menntað tónskáld og hefur samið efni fyrir Íslenska dansflokkinn í gegnum árin.

Skúli mennski spilar með honum í Póllandi og fljúga þeir saman á vegum verkefnisins Músík Express. Skúli ætlar jafnframt að halda stutta tónleika í flugvélinni á leiðinni út. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.