Lífið

Herforingi nær hefndum

Kvikmyndin Coriolanus verður frumsýnd í Bíó Paradís annað kvöld. Myndin er frumraun Ralph Fiennes í leikstjórastólnum og hefur hann hlotið einróma lof fyrir.

Coriolanus er fyrsta kvikmyndin sem Ralph Fiennes leikstýrir og segir frá herforingjanum Coriolanus sem ákveður að leita hefnda gegn íbúum Rómar eftir að hafa verið rekinn brott frá borginni. Til að ná fram hefndum tekur hann höndum saman við erkióvin sinn, Tullus Aufidius. Myndin er byggð á leikverki Williams Shakespeare en er hér flutt til samtímans.

Auk þess að leikstýra myndinni fer Fiennes með hlutverk Coriolanusar en með önnur hlutverk fara gæðaleikararnir Gerard Butler, Vanessa Redgrave og Brian Cox. Myndin var að mestu tekin upp í Belgrad í Serbíu og var fyrst sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar á síðasta ári.

Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og Fiennes hlaut BAFTA-verðlaunin í flokknum Outstanding Debut by a British Writer, Director or Producer. Á vefsíðunni Rotten Tomatoes segir einn gagnrýnandi meðal annars að Fiennes hafi tekist að gera eitt af óþekktari verkum Shakespeares að frábærri kvikmynd og að hún eigi eftir að falla í kramið jafnt hjá aðdáendum leikskáldsins og aðdáendum hasarmynda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.