Lífið

Gítarleikari Manfred Mann tók Heiðar í gítarkennslu

Gítarleikari Manfred Mann's Earth Band (til vinstri) er góður vinur fótboltakappans Heiðars Helgusonar.
Gítarleikari Manfred Mann's Earth Band (til vinstri) er góður vinur fótboltakappans Heiðars Helgusonar. nordicphotos/getty
Mick Rogers er gítarleikari, söngvari og annar af stofnmeðlimum hinnar sögufrægu hljómsveitar Manfred Mann's Earth Band sem stígur á svið í Háskólabíói 16. maí. Hann hlakkar mikið til að koma til Íslands, enda hefur góður vinur hans, fótboltakappinn Heiðar Helguson, hvatt hann ítrekað til að heimsækja landið.

„Heiðar Helguson er mjög góður vinur minn. Hann býr um tíu mínútum frá heimili mínu. Hann kom á tónleikana okkar í gærkvöldi [fimmtudagskvöld] og skemmti sér mjög vel," segir Rogers, sem býr í litlu sveitaþorpi rétt fyrir utan London. Rogers er aðdáandi úrvalsdeildarliðsins Fulham sem Heiðar spilaði með fyrir nokkrum árum og kynntust þeir út frá því. „Ég hef hitt nokkra úr fjölskyldunni hans og vini og þau eru mjög vingjarnleg. Hann hefur alltaf spurt mig af hverju ég vilji ekki spila á Íslandi, þannig að ég, Manfred og hljómsveitin hlökkum mikið til."

Auk þess að vera í Manfred Mann's Earth Band hefur Rogers sinnt sólóferli sínum og unnið með köppum á borð við Frank Zappa og Jeff Beck.

Aðspurður segir hann að Heiðar, sem spilar núna með QPR og ber titilinn Íþróttamaður Íslands, sé mikill aðdáandi Manfred Mann's Earth Band. Tónleikarnir á fimmtudagskvöld á staðnum Jazz Cafe í London voru þeir fyrstu sem hann sá með bandinu. Með honum í för var eiginkona hans Eik Gísladóttir.

Heiðar Helguson.
„Ég tók hann í smá gítarkennslu um daginn. Ég sagði við hann: „Kenn þú mér að skora mörk og ég skal kenna þér á gítarinn". Þegar ég var uppi á sviði á tónleikunum setti ég aðeins inn í prógrammið það sem ég hafði kennt honum að spila. En hann er hættur núna. Hann gafst upp og fannst þetta alltof erfitt," segir Rogers og hlær.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.