Innlent

Segir SÞ sýna mikinn veikleika

UtanríkisRáðherrar funda Össur Skarphéðinsson gagnrýndi viðbragðaleysi SÞ gagnvart Palestínu harðlega á opnum fundi í Noregi í gær.
UtanríkisRáðherrar funda Össur Skarphéðinsson gagnrýndi viðbragðaleysi SÞ gagnvart Palestínu harðlega á opnum fundi í Noregi í gær.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gagnrýndi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir aðgerðaleysi í málefnum Palestínu í opinni umræðu utanríkisráðherra Norðurlandanna um arabíska vorið í Stafangri í Noregi í gærmorgun.

Össur telur það sýna mikinn veikleika Sameinuðu þjóðanna að geta ekki tekið á málum ríkis eins og Palestínu þar sem frelsi og mannréttindi séu tekin af fólki.

Umsókn Palestínumanna um aðild að Sameinuðu þjóðunum hefur setið föst í ráðinu síðan í haust. Össur benti einnig á að ráðið hefði ekki þegið boð Abbas, forseta Palestínu, um heimsókn á svæðið.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að á fundinum hafi einnig komið fram að Íslendingar styðji þvingunaraðgerðir gegn Íran vegna kjarnorkuáætlunar landsins. Össur sagði alþjóðasamfélagið geta með sama hætti beitt sér af afli gegn landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum en ísraelsk stjórnvöld hafa veitt leyfi fyrir þremur nýjum landnemabyggðum á síðustu vikum. Bygging þeirra brýtur í bága við alþjóðalög.

Utanríkisráðherra lýsti einnig mikilvægi þess að Norðurlöndin beittu sér af afli fyrir mannréttindum og jafnréttismálum í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×