Skoðun

Álögur á sjúklinga vegna komu- og umsýslugjalda

Guðmundur Magnússon og Sigríður Hanna Ingólfsdóttir skrifar
Ár er liðið frá því að samningar á milli Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna runnu út þann 31. mars 2011. Í kjölfarið og vegna samningsleysis hafa sjúklingar þurft að greiða komu- og umsýslugjald fyrir þjónustu sérfræðilækna á stofum þeirra. Hér er um viðbótargjald að ræða, sem leggst við hluta sjúklings í útlögðum kostnaði. Rétt er að taka fram að ekki allir sérfræðilæknar innheimta slíkt gjald. ÖBÍ hafa borist dæmi um viðbótargjöld á bilinu 500 kr. til 3.500 kr. fyrir hverja komu.

Staðan bitnar fyrst og fremst á tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum sem þurfa á þjónustu sérfræðilækna að halda. Þar er þyngst byrðin á langveikum og öldruðum, sem þurfa meira á heilbrigðisþjónustu að halda, þar með talið þjónustu sérfræðilækna, en allur almenningur í samfélaginu. Ástandið hefur í för með sér auknar álögur fyrir þessa einstaklinga og fjölskyldur þeirra og kemur sérstaklega illa við tekjulága aldraða, öryrkja og foreldra langveikra barna. Í rannsókn sem framkvæmd var 2006 af Rúnari Vilhjálmssyni félagsfræðingi kom fram að öryrkjar vörðu um 6% af heildartekjum heimilisins í heilbrigðismál. Sú tala hefur að öllum líkindum hækkað, en gjaldtaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu jókst umtalsvert í kjölfar bankahrunsins, sbr. könnun Hagdeildar ASÍ frá byrjun árs 2009.

Einstaklingur með afsláttarkort borgar að fullu komu- og umsýslugjald. Þar sem þetta er viðbótargjald gefur það ekki rétt upp í afsláttarkort Sjúkratrygginga Íslands. Hér er því um að ræða hreint viðbótargjald sem sjúklingurinn einn ber kostnaðinn af. Sjúklingar sem reglulega leita til sérfræðilækna bera þá tugi þúsunda í viðbótargjald yfir lengra tímabil. Eitt af markmiðum laga um réttindi sjúklinga er að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi. Óheimilt er að mismuna sjúklingum meðal annars á grundvelli efnahags. Þjónusta sérfræðilækna er einn nauðsynlegur þáttur í veitingu heilbrigðisþjónustu. Gjaldtaka fyrir hvers kyns heilbrigðisþjónustu á að fara eftir ákvæðum laga um sjúkratryggingar og ákvæðum sérlaga eftir því sem við á, og engu öðru.

Minna má á Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af Íslands hálfu fyrir réttum 5 árum (30. mars 2007) en í 25. gr. samningsins er kveðið á um að aðildarríkin skuli „…viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. […] a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum, sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga…".

Hver er staðan í samningaviðræðum Sjúkratrygginga Íslands og samninganefndar sérfræðilækna? Eru samningaviðræður í gangi á milli samninganefndanna eða er algjör biðstaða?

ÖBÍ skorar á samningsaðila að sameinast í þeirri viðleitni að semja sín á milli þannig að öllum notendum þjónustu sérfræðilækna sé tryggt aðgengi að sérfræðiþjónustu án aukinnar kostnaðarhlutdeildar sjúklinga.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×