Lífið

Eurovision hópurinn heldur til Aserbaídsjan

Greta og Eurovision hópurinn verða í Baku í tvær vikur og fljúga heim örfáum klukkutímum eftir að aðalkeppninni lýkur.
Greta og Eurovision hópurinn verða í Baku í tvær vikur og fljúga heim örfáum klukkutímum eftir að aðalkeppninni lýkur.
„Við förum út næsta laugardag og fyrsta æfing er strax á sunnudaginn," segir Eurovision farinn Greta Salóme Stefánsdóttir sem undirbýr sig nú undir ferðina stóru til Baku með restinni af Eurovision hópnum.

Alls er um 20 manna hópur sem heldur utan á laugardaginn og verður í Aserbaídsjan fram yfir keppni og varla mínútu lengur. „Sökum tímamismunarins hefst keppnin á miðnætti að staðartíma og við eigum flug klukkan átta morguninn eftir. Ef við komum til með að komast áfram í aðalkeppnina má því segja að við munum syngja og fljúga svo strax burt," segir Greta sem er ánægð með þau viðbrögð sem lagið Never Forget hefur verið að fá um alla Evrópu, enda varla annað hægt. Sænska framlagið trónir á toppi flestallra veðbanka nú tveim vikum fyrir keppni, en ströng barátta er um sætin þar á eftir. Ísland og Ítalía berjast nú um annað sætið í kosningu á síðunni ESC Today og Ísland endaði í öðru sæti, með Serbíu fast á hæla sér, í kosningu á síðunni ESC stats.

Nánasta fjölskylda Gretu kemur til með að fylgja henni til Baku og Elvar Þór Karlsson, kærastinn hennar, kemur viku á eftir þeim. „Hann er á fullu að undirbúa opnun nýju Boot Camp stöðvarinnar í Elliðarárdalnum, en hann er að reka Crossfit stöðina sem verður þar inní," segir Greta. Það er því mikið álag á heimili þeirra þessa dagana, en í ofanálagi er Greta að útskrifast með master í tónlist frá Listaháskólanum nú í vor og þarf að verja ritgerðina sína viku eftir heimkomu. Þau skötuhjúin eiga þó bókaða þriggja vikna ferð til Mallorca í júlí þar sem verður slakað á.

Kjóllinn sem Greta mun klæðast á sviðinu í Baku hefur fengið mikla athygli og aðspurð hvernig hún hafi farið að því að pakka 70 metrum af silki ofaní tösku segir hún smá misskilning hafa átt sér stað þar.

„Kjóllinn er úr 7 metrum að silki en ekki 70," segir hún og hlær. Hópurinn er allur vel stemdur og tilbúinn að leggja í hann. „Þetta er frábær hópur og ég er svo þakklát fyrir hann. Við erum mjög róleg og við ætlum bara að gera okkar besta, restin verður svo bara að koma í ljós," segir Greta spennt í röddu.

tinnaros@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.