Lífið

Ætla að sjá City vinna titilinn

á leið til manchester Magnús Ingvason, formaður Manchester City-klúbbins, ætlar að sjá sína menn vinna titilinn.
á leið til manchester Magnús Ingvason, formaður Manchester City-klúbbins, ætlar að sjá sína menn vinna titilinn. fréttablaðið/pjetur
„Við vitum að í fótbolta getur allt gerst, en andskotinn hafi það, þetta verður bara að nást,“ segir Magnús Ingvason, formaður Manchester City-klúbbsins á Íslandi.

23 meðlimir klúbbsins ætla á lokaleikinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudaginn þegar City tekur á móti QPR á Etihad-leikvanginum. Með sigri tryggir City sér Englandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í 44 ár, eða síðan 1968. Sjálfur byrjaði Magnús að halda með City árið 1969.

„Þetta verður ævintýraleg stemning og við getum hreinlega ekki beðið,“ segir Magnús um ferðalagið til Manchester. „Þetta er búið að vera svolítið rússíbanadæmi. Við keyptum þessa ferð í nóvember og þá leit þetta vel út. Síðan kom bakslag eftir áramótin og þeir svartsýnustu voru frekar daprir þegar Manchester United var með átta stiga forystu. En ég hef ekki misst trúna og ég er búinn að segja það alltaf að við erum ekki að fara í þessa ferð nema til að taka við titlinum,“ segir Magnús, borubrattur.

Áttatíu manns eru í City-klúbbnum á Íslandi, sem er aðeins brot af þeim sem greiddu félagsgjaldið í United-klúbbinn fyrir þessa leiktíð, eða tæplega þrjú þúsund manns. Hann segir að margir aðdáendur annarra liða vonist eftir að City vinni titilinn frekar en nágrannarnir í United. „Það eru allra liða kvikindi að hvetja mann áfram. En þetta lýsir kannski meira hatri á United en væntumþykju fyrir City.“ -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.