Lífið

Keypti Galtarvita

Ólafur Jónasson stendur fyrir tónleikum til styrktar Galtarvita. Hljómsveitirnar Tilbury og Hjaltalín eru á meðal þeirra sem munu koma fram.
Ólafur Jónasson stendur fyrir tónleikum til styrktar Galtarvita. Hljómsveitirnar Tilbury og Hjaltalín eru á meðal þeirra sem munu koma fram. fréttablaðið/valli
Tónleikar til styrktar Galtarvita verða haldnir í Gamla bíói í kvöld og munu sveitir á borð við Tilbury og Hjaltalín stíga á svið um kvöldið. Allur ágóði tónleikanna rennur í uppbyggingu á listasmiðju á staðnum.

Ólafur Jónasson, eða Óli viti eins og hann er gjarnan nefndur, keypti vitann árið 2000 og hefur rekið listasmiðju á svæðinu síðan 2001. Meðlimir hljómsveitarinnar Múm voru fyrstir til að nýta sér aðstöðuna árið 2001 og hafa verið dyggir stuðningsmenn Galtarvita allar götur síðan.

„Ríkið seldi vitann árið 2000 og ég ákvað að bjóða í hann og fékk hann. Ég heimsótti þó ekki svæðið fyrr en ég hafði eignast vitann og kolféll þá fyrir staðnum og út frá því fæddist hugmyndin um að nota staðinn undir hvers kyns listsköpun,“ útskýrir Ólafur. Vitinn stendur í Keflavík á Vestfjörðum og þangað liggja engir bílvegir. Þess í stað kýs fólk annað hvort sjóleiðina eða að ganga með föggur sínar frá Skálavík. Þar er heldur ekkert símasamband og eina útvarpsstöðin sem næst er gamla góða Gufan.

„Þarna losnar maður algjörlega undan öllu áreiti,“ segir Ólafur og bætir við að hugmyndin sé að reka áfram athvarf fyrir skapandi fólk og ferðamenn á staðnum. „Hér verður hægt að fara í gönguferðir, njóta lista og hugleiða, það er allt inni í þessu,“ segir hann og hlær.

Hljómsveitirnar Hjaltalín, Tilbury, Mr. Silla, Borko og Snorri Helgason koma fram á tónleikunum í kvöld og mun ágóði þeirra renna til áframhaldandi uppbyggingu og viðhalds á húsakosti Galtarvita. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og kostar 1.500 krónur inn.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.