Lífið

Vilja sýna ferðamönnum næturlífið

Darri MacMahon og Hlynur Friðfinnsson hafa stofnað fyrirtækið Reykjavík by Night sem sérhæfir sig í að lóðsa ferðamenn um næturlíf miðborgarinnar.
Darri MacMahon og Hlynur Friðfinnsson hafa stofnað fyrirtækið Reykjavík by Night sem sérhæfir sig í að lóðsa ferðamenn um næturlíf miðborgarinnar. Fréttablaðið/Stefán
„Við höfum tekið eftir aukinni eftirspurn eftir þjónustu á borð við þessa frá útlendingum niðri í bæ,“ segir Darri MacMahon, annar eigandi hins nýstofnaða fyrirtækis Reykjavík by Night.

Fyrirtækið sérhæfir sig í að lóðsa ferðamenn um hið margrómaða næturlíf Reykjavíkurborgar. Darri og félagi hans, Hlynur Friðfinnsson, stofnuðu fyrirtækið fyrir stuttu og þekkja, að eigin sögn, næturlífið eins og handarbakið á sér. „Við höfðum verið að spá í þessu í langan tíma og nú þegar ferðamannaiðnaðurinn er í mikilli sókn fannst okkur ekki annað hægt en að kýla á þetta,“ segir Darri sem er að útskrifast sem íþróttafræðingur en Hlynur vinnur hjá Ölgerðinni.

Reykjavík by Night er þriðja fyrirtækið sem hefur verið stofnað í kringum næturlífið í Reykjavík að undanförnu enda hefur skemmtanamenning landans ákveðið aðdráttarafl á ferðamenn sem sækja landið heim. „Það er í raun ótrúlegt að það séu ekki fleiri svona fyrirtæki á Íslandi enda er næturlífið frægt um allan heim. Við höfum báðir verið að vinna og stundað skemmtistaðina í nokkur ár og tekið eftir útlendingum á ráfi um bæinn án þess að vita hvert er best að fara,“ segir Darri. Hin fyrirtækin sem veita sömu þjónustu eru Reykjavík Rocks og Nightlife Friend.

Auk Darra og Hlyns eru sex leiðsögumenn starfandi hjá Reykjavik by Night sem einnig taka að sér útbúa dagsferðir. „Ég fékk pabba minn, Neil McMahon, til að vera með okkur en hann er Íri sem hefur búið hér í þrjá áratugi og ætlar að sjá um þá hópa sem vilja til dæmis fara út að borða og fræðast um íslenska menningu án þess að fara á djammið. Við ættum að geta komið til móts við fjölbreyttan hóp viðskiptavina.“ Hægt er að fræðast um fyrirtækið á vefsíðunni Rvkbynight.is. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.