Lífið

Festa ferðalagið á filmu

Unnar Helgi Daníelsson Beck hefur stofnað fyrirtækið Memo Iceland sem sérhæfir sig í að búa til heimildamyndir fyrir ferðamenn sem koma hingað til lands.
Unnar Helgi Daníelsson Beck hefur stofnað fyrirtækið Memo Iceland sem sérhæfir sig í að búa til heimildamyndir fyrir ferðamenn sem koma hingað til lands. Fréttablaðið
„Þetta er glæný hugmynd og þjónusta sem vantaði sem og markaðsetning fyrir Ísland í leiðinni,“ segir Unnar Helgi Daníelsson Beck eigandi fyrirtækisins Memo Iceland sem sér til þess að ferðamenn gleymi ekki ævintýrum sínum á Íslandi.

Memo Iceland býður upp á þá þjónusta að fylgja ferðamönnum eftir og festa dvöl þeirra hérlendis á filmu. Ferðalangarnir geta svo tekið með sér stutta heimildarmynd um ferðina til að sýna vinum og vandamönnum heima fyrir. Unnar Helgi segir þjónustuna hafa fengið góð viðbrögð hingað til.

„Ég vann við kvikmyndagerð í sjö ár áður en ég stofnaði ferðaþjónustufyrirtækið og fannst tilvalið að blanda þessu tvennu saman,“ segir Unnar Helgi sem einnig á fyrirtækið Reykjavik Rocks. „Þessi þjónusta er kjörin hérna á Íslandi því flestir sem koma hingað eru að skoða mikið á stuttum tíma. Þess vegna er gaman að geta tekið með sér stutta heimildamynd um ferðina og geyma þannig minninguna á skemmtilegan hátt.“

Að sögn Unnars verður þjónustan á sanngjörnu verði og er meðallengd myndana um 5 mínutur en fyrirtækið er með marga færa tökumenn og klippara í vinnu. „Þetta er kjörin vinna fyrir fólk sem er nýbúið með Kvikmyndaskólann og fá þannig reynsluna.“

Þó að aðalmarkhópurinn séu ferðamenn geta Íslendingar einnig nýtt sér þjónustu Memo Iceland. „Ég hef fengið margar fyrirspurnir um hvort við viljum skrásetja steggjanir og gæsanir svo ég býst við að það verði líka smá að gera í því í sumar.“ Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um Memo Iceland á vefsíðunni Reykjavikrocks.is. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.