Innlent

Ómögulegt að veita öllum starf

dagur b. eggertsson
dagur b. eggertsson
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs segir ómögulegt fyrir borgina að ætla sér að tryggja öllum í Reykjavík störf. Ekki hafa verið færri sumarstörf í boði hjá borginni í mörg ár og var 66 prósent umsækjenda hafnað í ár. Ráðið var í 1.384 störf, en umsækjendur voru 4.446. Þeir voru 5.116 í fyrra og ráðið var í 1.949 stöður.

„Mér finnst stóru tíðindin vera þau að þeir sem sækja um hjá borginni eru þúsund færri í ár en í fyrra," segir Dagur. „Sem bendir til þess að ástandið sé betra hjá almennum fyrirtækjum. Síðan bætist við að þeir sem ekki fá vinnu, sækja um á mörgum öðrum stöðum. Ég held að það sé of snemmt að slá því föstu að þeir sem ekki fá störf hjá borginni verði þá atvinnulausir í sumar."

Dagur segir borgaryfirvöld muni fara áfram yfir stöðuna í samstarfi við Vinnumálastofnun. Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir atvinnutorgi fyrir ungt fólk sem hefur verið án vinnu eða skóla yfir ákveðið tímabil og beint sjónum sínum að lausnum fyrir langtímaatvinnulausa. Að sögn Dags hefur forgangsröðuðum fjármunum verið þannig háttað að störf séu búin til fyrir þann hóp.

„Því hættan er sú ef það líður mjög langur tími án skóla eða vinnu þá getur fólk fallið í far sem er ekki gott fyrir neinn," segir Dagur.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×