Skoðun

Gríman 2012 – íslensku sviðslistaverðlaunin

Ása Richardsdóttir skrifar
Í dag klukkan fimm síðdegis verða tilnefningar valnefnda til íslensku sviðslistaverðlaunanna – Grímunnar – kunngjörðar í Tjarnarbíói – miðstöð sviðslista.

89 verk hafa verið frumsýnd á Íslandi á nýliðnu leikári og keppa þau öll til verðlauna.

Leikárið um kring starfa fjórar valnefndir á vegum Grímunnar sem á fjórða tug einstaklinga skipa. Þetta fólk sækir leikhús, oft í viku, af einskærum áhuga og ástríðu. Valnefndarfólk Grímunnar hefur nú kosið þær sýningar og listafólk sem að þeirra mati hefur skarað fram úr í vetur – og tilnefnt verður til verðlauna í dag.

Í stærstu sviðslistastofnunum landsins, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, hafa vel á þriðja tug verka verið frumflutt í vetur, í sviðssetningu fyrrnefndra stofnana og á vegum samstarfsfélaga þeirra úr röðum sjálfstæðra sviðslistahópa. Tugur verka hefur verið sviðsettur af hinum þremur meginstofnunum landsins, Leikfélagi Akureyrar, Íslensku óperunni og Íslenska dansflokknum og í Útvarpsleikhúsinu á RÚV voru frumflutt 7 glæný íslensk verk. Þar fyrir utan hafa sjálfstæðir sviðslistahópar frumsýnd á sjötta tug verka í vetur. Þessa grósku er ekki aðeins að finna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stærsti hluti verka er sýndur, heldur einnig landið um kring, frá Keflavík til Grindavíkur, til Borgarness, úti á Rifi á Snæfellsnesi, á Akureyri og víðar um landið. Leikhúsið fer æ oftar út fyrir eigin veggi og voru ýmis ný verk vetrarins sýnd á hótelum, skrifstofurýmum, í búðargluggum, á götum úti, í gömlum frystihúsum, svo fátt eitt sé talið. Sviðslistafólki er ekkert óviðkomandi og eru umfjöllunarefni verka vetrarins svo mörg að þau eru efni í aðra grein. En, ekkert af framangreindu væri mögulegt nema vegna þess að íslenskir áhorfendur hafa enn á ný sýnt í vetur að leikhúsið er þeim mikilvægt, sem griðarstaður, fyrir upplifun og skemmtun en einnig staður þar sem finna má nýjar hugmyndir, fegurð, ljótleika, hugljómun og dýpri sannleik.

Íslenskar sviðslistir eru í sókn og sýna engin merki þess að yfir landið hafi dunið eitt stykki HRUN. Með nýju frumvarpi menningarmálaráðherra að sviðslistalögum er ætlunin að renna styrkari stoðum undir fjölbreytta sviðslistastarfsemi í landinu. Ein mikilvægasta nýbreytni laganna er að stofnuð verði kynningarmiðstöð sviðslista sem hafi þann megin tilgang að efla alþjóðlegt samstarf íslensks sviðslistafólks og koma verkum þeirra á framfæri erlendis. Þrátt fyrir gott gengi einstakra sviðslistahópa á erlendri grundu er stór akur enn óplægður í þessum efnum sem til framtíðar mun skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri og listafólki sem og þjóðinni ný alþjóðleg viðmið og aukinn hróður.




Skoðun

Sjá meira


×