Skoðun

Um Sp Kef

Ari Teitsson skrifar
Það mun hafa verið á fyrstu mánuðum ársins 2010 sem tekin var ákvörðun um að endurreisa Sparisjóð Keflavíkur undir merkjum Sp Kef. Ákvörðunin byggðist m.a. á áformum um endurreisn sparisjóðanna sem samþykkt voru á Alþingi.

Sparisjóður Keflavíkur starfrækti afgreiðslur á Suðurnesjum, á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og í Húnaþingi vestra og var þjónusta hans metin viðkomandi byggðum mikilvæg.

Þá var einnig horft til þess að við fall sparisjóðsins hefði verulegur kostnaður lagst á ríkissjóð vegna yfirlýstra ríkisábyrgða á innistæðum.

Í upphafi árs 2010 var hins vegar ekki gert ráð fyrir öllum þeim mikla kostnaði sem féll á lánastofnanir vegna síðari ákvarðana um niðurfellingu skulda samkvæmt sértækri skuldaaðlögun og svokallaðri 110% leið, en hvort tveggja bitnaði hart á Sp Kef. m.a. vegna erfiðrar stöðu á Suðurnesjum.

Enn síður var gert ráð fyrir dómum um ólögmæti gengislána og síðari dómum um vexti af þeim lánum. Allt þetta mun reiknað inn í fjárþörf v. uppgjörs Sp. Kef. og ætti því engum að koma á óvart að fjárþörf er allt önnur en áætlað var í upphafi árs 2010.

Öllum má ljóst vera að rekstur Sparisjóðs Keflavíkur árin fyrir hrun kallar á sérstaka rannsókn, reksturinn eftir hrun sýnir hins vegar þá erfiðleika sem þau fjármálafyrirtæki sem ekki fengu stórfelldar niðurfærslur á lánasöfnum sínum glíma við.

Á árinu 2011 bætast síðan enn við nýjar álögur í formi nýs skatts til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, sérstaks bankaskatts og aukinnar gjaldtöku til eftilitsaðila. Engum ætti því að koma á óvart að bókhald smærri fjármálafyrirtækja sýnir ekki mikinn hagnað á árinu 2011.

Það er svo sérstakt umfjöllunarefni hvort sanngjarnt sé að bankahrunið með fylgjandi endurreisn og skuldatilfærslu ásamt tilheyrandi skattlagningu verði smærri fjármálafyrirtækjum að falli.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×