Innlent

Íslensk farfuglaheimili fá toppeinkunn

Farfuglaheimili Í móttökunni á farfuglaheimilinu á Vesturgötu 17.
Farfuglaheimili Í móttökunni á farfuglaheimilinu á Vesturgötu 17.
Þrjú íslensk farfuglaheimili eru meðal 10 bestu farfuglaheimila í heimi samkvæmt mati gesta sem greint er frá á vefnum hihostels.com. Farfuglaheimilið á Laugarvatni er í tíunda sæti, farfuglaheimilið á Selfossi í áttunda sæti og farfuglaheimilið Reykjavik Downtown á Vesturgötu 17 í sjötta sæti.

„Reykjavik Downtown hefur verið á listanum yfir 10 bestu farfuglaheimili í heimi frá því það var opnað 2009 og við fikrum okkur sífellt upp listann," segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri farfuglaheimilanna í Reykjavík.

Hún getur þess að núverandi listi gildi frá janúar á þessu ári fram í júní. Gestir meti meðal annars þjónustu, staðsetningu, þægindi, vingjarnleika starfsfólks, hreinlæti og umhverfisvernd. „Á farfuglaheimilinu á Vesturgötu eru 70 rúm í 19 herbergjum. Þarna myndast heimilisleg stemning sem er bæði gestunum sjálfum og frábæru starfsfólki að þakka."

Efst á listanum í ár er farfuglaheimilið Bangkok Siam Square í Taílandi. Þar á eftir koma Morty Rich Hostel í Houston í Bandaríkjunum, Flåm vandrerhjem í Noregi, Lillehammer vandrerhjem í Noregi, Pathpoint Cologne í Köln í Þýskalandi, Reykjavik Downtown, Utano YH í Kyoto í Japan, farfuglaheimilið á Selfossi, Shin-Osaka YH í Osaka í Japan og í tíunda sæti er farfuglaheimilið á Laugarvatni.

Þessi eru þau tíu bestu af þeim tveimur þúsundum sem hægt er að bóka rúm á á Netinu en alls eru farfuglaheimili í heiminum rúmlega fjögur þúsund í yfir 60 löndum.- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×