Skoðun

Áríðandi tilmæli

Anna Kristine Magnúsdóttir skrifar
Í Kattholti dvelja nú tuttugu nýfæddir kettlingar. Stjórn Kattavinafélags Íslands hefur á undanförnum vikum farið víða um höfuðborgarsvæðið í leit að heimilislausum köttum og reynt að koma þeim í skjól í Kattholti. Ástandið er skelfilegt. Hungraðar og hræddar kisur sem eiga í engin hús að venda halda til í fjöru, bak við gáma, fela sig bak við steina – þar til þær sjá mat. Þá verður hungrið hræðslunni yfirsterkara.

Í Kattholti er mikill fjöldi óskilakatta og í ljósi ástandsins þar nú sér stjórn Kattavinafélags Íslands sig tilneydda að hvetja kattaeigendur að láta gelda högna og taka læður úr sambandi. Þær kettlingafullu læður, litlir kettlingar og kisur á ýmsum aldri sem búa nú í Kattholti sýna aðeins eitt: Ábyrgðarleysi kattaeigenda.

Kattavinafélag Íslands hvetur kattaeigendur um allt land til að axla þá ábyrgð sem fylgir því að eiga kött og láta taka þá úr sambandi um leið og þeir komast á réttan aldur. Aðeins þannig getum við stemmt stigu við offjölgun katta. Ófrjósemisaðgerð er varanleg lausn og fær kisi að fara samdægurs heim og er fljótur að ná góðri heilsu.

Útigangskettir lifa við harðan kost, hungraðir, veikir, kaldir og hraktir og eiga ömurlega ævi. Rekstur Kattholts er mjög erfiður og reynir þessi gríðarlega offjölgun katta mjög á starfsfólk og starfsemi Kattholts sem er líknarfélag, rekið af félagsgjöldum og með hjálp fyrirtækja sem færa kisunum mat.

Algengt viðhorf fólks er að halda að læða þurfi endilega að eignast kettlinga. Það er mikill misskilningur. Kostir við geldingu og ófrjósemisaðgerðir eru að bæði læður og högnar verða góðir einstaklingar, heimakærir, blíðir, hreinlátir og lenda síður í slagsmálum og á flakki.

Kattaeigendur! Tökum höndum saman og breytum ástandinu til betri vegar, sýnum ábyrgð og dýravernd. Það er allra hagur, ekki síst kattanna.




Skoðun

Sjá meira


×