Kofi Annan, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna, og Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, sögðu að loknum fundi sínum í Damaskus í gær að viðræður þeirra hefðu verið uppbyggjandi, að því er greint var á vef sænska ríkisútvarpsins.
Um liðna helgi sagði Annan í viðtali við franskt dagblað að friðaráætlun hans væri búin að vera. Assad sagði aftur á móti í viðtali við þýska sjónvarpsstöð á sunnudag að svo væri ekki, áætlun Annans væri góð. Hins vegar væru til lönd sem ekki vildu að hún heppnaðist. Assad sakar Bandaríkin um að koma á ójafnvægi í Sýrlandi með pólitískum stuðningi við stjórnarandstöðuna. Hann sakar einnig Sádi-Arabíu, Tyrkland og Katar um að styðja stjórnarandstæðinga.
Að loknum fundinum í gær virtist sem Annan ætlaði að gefa áætluninni enn eitt tækifærið. Frá Damaskus hélt hann til Írans þar sem hann hugðist ræða við ráðamenn um ástandið í Sýrlandi.
Samtímis bárust þær fregnir frá Rússlandi að stjórnvöld ætluðu ekki að svo stöddu að afhenda Sýrlendingum herflugvélarnar fjörutíu sem undirritað var samkomulag um í lok síðasta árs. Það samkomulag hefur sætt harðri gagnrýni.
Um helgina biðu að minnsta kosti eitt hundrað manns bana í átökum í Sýrlandi.- ibs

