Innlent

Segir úrbóta þörf eftir laumufarþegaatvik

Keflavíkurflugvöllur Talsmaður Iceland Express segir atvik þar sem tveir menn komust í leyfisleysi inn á flughlað og upp í flugvél kalla á umbætur. Fréttablaðið/pjetur
Keflavíkurflugvöllur Talsmaður Iceland Express segir atvik þar sem tveir menn komust í leyfisleysi inn á flughlað og upp í flugvél kalla á umbætur. Fréttablaðið/pjetur
Öryggisferlar flugfélaga á Keflavíkurflugvelli eru óbeint tengdir almennu öryggiskerfi á flugvallarsvæðinu. Úrbóta er þó þörf í ljósi atviks um síðustu helgi þegar tveir menn komust inn á öryggissvæði flugvallarins og upp í flugvél Icelandair þar sem þeir fundust. Þetta segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, í samtali við Fréttablaðið, aðspurður um yfirlýsingu Isavia um að öryggiskerfi á flugvellinum „hafi virkað" þrátt fyrir uppákomuna.

„Bæði flugstjórar og yfirflugfreyjur eru öryggisfulltrúar í vélunum og athuga hvort allt sé með felldu um borð í vélinni áður en byrjað er að hleypa um borð," segir Heimir Már. „Þetta er öryggiskerfi sem við höfum sjálf og tengist óbeint almennu öryggi á Keflavíkurflugvelli."

Hann segir þó ljóst að úrbóta sé þörf.

„Það er ekki alveg allt í lagi ef fólk kemst yfir girðinguna óáreitt og getur athafnað sig í einhvern tíma á flughlaðinu. Ef menn með verri tilgang en þennan hefðu verið á ferð er aldrei að vita hvað hefði getað gerst," segir Heimir Már og bætir því við að hann búist við úrbótum að rannsókn lokinni.

Í svari Wow Air við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að þjálfun flugliða snúist fyrst og fremst um öryggismál og flugvernd.

„Það sem gerðist [þegar mennirnir fundust í flugvélinni um helgina] sýnir að sú þjálfun skilar sér. En auðvitað er þetta stórt svæði og erfitt að verja allt svæðið og því ljóst að alltaf er gott að endurskoða og bæta öryggisferla."- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×