Skoðun

Samhengi hlutanna

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar
Fyrir skömmu greiddi Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum arð til hluthafa sinna. Upphæðin: 850 milljónir króna. Frá árinu 2007 hefur þetta EINA útgerðarfyrirtæki greitt hluthöfum sínum um 2,8 milljarða í arð, samkvæmt samantekt sem DV birti. Tvö þúsund og átta hundruð milljónir króna! Fyrir Íslending með meðallaun, um 325.000 á mánuði, tæki það um 217 ár að vinna fyrir þessari nýjustu arðgreiðslu. Vinnslustöðin er eitt þeirra fyrirtækja hér á landi sem sækir arð sinn í sameiginlega auðlind þjóðarinnar, fiskinn í sjónum.

En það samhengi sem mig langar til þess að setja þessa EINU arðgreiðslu í er umsókn Íslands að ESB. Hún er nefnilega talin kosta álíka upphæð og þessi arðgreiðsla Vinnslustöðvarinnar fyrir árið 2011, eða um 950 milljónir króna. Samkvæmt áætlun utanríkisráðuneytisins.

Andstæðingar aðildar kvarta og kveina yfir því hvað þetta sé ofboðslega dýrt ferli og að landið hafi ekki efni á því. Sumir fara með fullkomið fleipur og tala um milljarða!

En það er augljóst mál að bara eitt íslenskt útgerðarfyrirtæki gæti borgað úr eigin vasa fjölmargar aðildarumsóknir að ESB, og án þess að það kæmi niður á rekstri fyrirtækisins! Til dæmis Vinnslustöðin.

Verði af aðild Íslands að ESB er nánast borðleggjandi að kostnaður íslensks atvinnulífs og almennra borgara mun lækka, í formi lægri vaxta. Vextir á Íslandi hafa til fjölda ára verið tvöfalt hærri á við Evrópu. Í því samhengi er rætt um tugi milljarða króna árlega, sem myndu væntanlega sparast. Vinnslustöðin í Eyjum myndi líka græða á því!

Eins og alkunna er, þá eru útvegsmenn Íslands nær alfarið á móti aðild Íslands að ESB, m.a. vegna ótta þeirra við að auðlindin verði tekin af Íslendingum (þeim?), en það er hræðsluáróður sem stenst ekki skoðun. Til að koma þessu sjónarmiði á framfæri keyptu útgerðarmenn fjölmiðilinn Morgunblaðið. Varla líður sú vika að ekki sé hamrað á því í blaðinu hvað ESB sé nú slæmt og hræðilegt.

Mörg útgerðarfélög gera hins vegar upp ársreikninga sína upp í evrum (stöðug og alþjóðleg mynt) og sum þeirra hafa jafnvel stungið upp á því að taka einhliða upp evru. Svona er nú margt skrýtið í henni veröld.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×