Innlent

Guðjón Már eignast OZ-nafnið á ný

Guðjón Már Guðjónsson
Guðjón Már Guðjónsson
Jón Stephenson von Tetzchner, stofnandi og fyrrum forstjóri norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera, hefur fjárfest í íslenska sprotafyrirtækinu Medizza.

Medizza er hugarfóstur Guðjóns Más Guðjónssonar, sem jafnan er kenndur við OZ, en raunar hefur Medizza nýverið tryggt sér nafnið OZ og hefur því skipt um nafn. OZ-nafnið var áður í eigu Nokia. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í gær.

OZ er sprotafyrirtæki stofnað árið 2009 sem vinnur að því að þróa tækni fyrir stafræna dreifingu sjónvarpsefnis. Guðjón Már segir að fyrirtækið starfi í sama geira og þekkt fyrirtæki á borð við Spot-ify, Netflix og Hulu sem miðli afþreyingarefni á nýjan hátt.

„Á síðasta ári varð ákveðin kúvending í tækninni hjá okkur þegar við hófum þróun á vissum nýjungum sem voru betri en það sem við höfðum áður í höndunum,“ segir Guðjón Már og heldur áfram: „Núna árið 2012 þurfum við að hætta að hugsa eingöngu um tæknina og byrja að velta markaðsmálunum fyrir okkur líka.“

Guðjón segir að kaupin á OZ-nafninu og fjárfesting Jóns, sem er fyrsta utanaðkomandi fjárfestingin í fyrirtækinu, geri fyrirtækinu kleift að sækja fram af meiri krafti en ella á næstunni.

„Við erum ennþá lítið og ungt fyrirtæki og ég á ekki von á því að við munum blása mikið í lúðra hér heima á næstunni. Ísland er þó góður tilraunamarkaður fyrir viðskiptalíkan sem við hugsum fyrir stærri markaði þegar fram líða stundir.“

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×