Gagnrýni

Margt leynist í mixinu

Trausti Júlíusson skrifar
Beatmakin Troopa.
Beatmakin Troopa.
Tónlist. If You Fall You Fly. Beatmakin Troopa. Extreme Chill.



Beatmakin Troopa er listamannsnafn Pans Thorarensen sem hefur verið áberandi á íslensku raftónlistarsenunni undanfarin ár. If You Fall You Fly er fimmta platan hans undir því nafni, en að auki er Pan annar helmingur dúósins Stereo Hypnosis og einn af forsvarsmönnum Extreme Chill-hópsins sem hefur verið duglegur við tónleikahald í borginni, auk þess að halda samnefnda tónlistarhátíð á ári hverju á Hellissandi. If You Fall You Fly er jafnframt fyrsta platan sem Extreme Chill gefur út.

Tónlist Beatmakin Troopa er hæggeng og stemningarfull instrúmental-tónlist. Aðaláherslan er á að búa til góðan grunn og hlaða svo ofan á hann flottum hljóðum, hljóðheimurinn skiptir ekki síður máli en lagasmíðarnar sjálfar. Troopa hefur lengi verið mjög fær í þessari iðju og sýnir það enn og aftur á nýju plötunni sem hann vann í samstarfi við Þorkel Atlason poppara, tónskáld og tilraunatónlistarmann.

Það eru fimm lög á If You Fall You Fly og maður heyrir vel að þeir félagar Troopa og Þorkell hafa legið yfir hverju hljóði. Þetta er býsna góð plata. Hún er ekki beint frumleg eða framsækin, en stendur samt vel fyrir sínu. Hljómburðurinn er líka mjög góður og það leynast mörg flott hljóð í mixinu þegar vel er hlustað. Á heildina litið enn ein fín plata frá Beatmakin Troopa.

Niðurstaða: Fimmta plata Beatmakin Troopa er í anda fyrri verka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×