Íslenski boltinn

Guðjón Árni hefur skorað fimm mörk í síðustu þremur leikjum í Krikanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Árni er langmarkahæsti varnarmaður Pepsi-deildarinnar með 6 mörk.
Guðjón Árni er langmarkahæsti varnarmaður Pepsi-deildarinnar með 6 mörk. Mynd/Stefán
FH tekur á móti KR í 16. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld og getur með sigri náð átta stiga forskoti á KR á toppi deildarinnar auk þess að eiga leik inni á Íslands- og bikarmeistarana úr Vesturbænum.

FH-ingar hafa notið góðs af tveimur deildartöpum KR í röð auk slæms gengis Vesturbæinga á útivelli. KR-ingar hafa aðeins náð í samtals tvö stig í síðustu fjórum útileikjum og þurfa að breyta því ætli þeir að halda titilvörninni á lífi.

FH-ingar hafa aftur á móti náð í 15 af 18 mögulegum stigum í síðustu 6 leikjum sínum þrátt fyrir að aðeins einn þeirra hafi farið fram í Kaplakrika.

Guðjón Árni Antoníusson, hægri bakvörður FH-liðsins, hefur verið óstöðvandi í undanförum heimaleikjum FH í deildinni og getur skorað í fjórða heimaleiknum í röð í kvöld.

Guðjón Árni er með fimm mörk og eina stoðsendingu í undanförnum þremur leikjum sínum í Krikanum og sjötta mark hans í sumar kom á gamla heimavelli hans í Keflavík. Guðjón Árni hefur ennfremur skorað tvennu í síðustu tveimur heimaleikjum sínum, í 2-2 jafntefli við Stjörnuna og 5-2 sigri á Selfossi.

Það má því búast við því að Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, geri ráðstafanir til að verjast Guðjóni Árna í kvöld en leikurinn hefst klukkan 18.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×